16.08.2024

Föstudagsmolar forstjóra 16. ágúst 2024 - Gestahöfundur er Helga Pálmadóttir deildarstjóri á Miðgarði og sviðsstjóri hjúkrunar.

Föstudagsmolar 16. ágúst 2024 – Vinnustaðamenning.

 

Vinnustaðamenning vísar til menningar innan vinnustaða þar sem hver og einn vinnustaður hefur sína eigin menningu. Vinnustaðamenn samanstendur af ríkjandi gildum, hefðum, viðhorfum og hegðunarmynstri innan fyrirtækja hún er gjarnan rótgróin og henni er erfitt að breyta.  

 

Rannsóknir hafa sýnt að vinnustaðamenning hefur áhrif á frammistöðu og velgengni fyrirtækja. Lengi vel af þessi þáttur hundsaður af bæði stjórnendum og fræðimönnum. Fyrir því voru margar ástæður sem endurspegla ríkjandi hugmyndafræði starfsfólks: ,,svona gerum við hlutina hér“. Óskrifaðar og ósagðar reglur um hvernig á og á ekki að vinna hefur áhrif á sjálfsmynd starfsfólks og hjálpar til við að gera starfsumhverfið stöðugt. Almennt gerir fólk sér ekki grein fyrir menningunni á sínum vinnustað fyrr en á hana reynir. Í þessu sambandi er talað um sterka og veika vinnustaðamenningu. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki með sterka vinnustaðamenningu nái meiri árangri en fyrirtæki með veika vinnustaðamenningu. 

 

En hvað er sterk og veik vinnustaðamenning? 

Samkvæmt Deal og Kennedy er sterk vinnustaðamenning kerfi óformlegra reglna sem útskýra hvernig fólk á að haga sér. Starfsmenn vita nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim og þurfa ekki að eyða tíma í að átta sig á því hvernig þeir eiga að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Slíkt gerir fólki kleift að vinna vinnuna sína betur og starfsfólk verður ánægðara með það sem það er að gera. Í veikri vinnustaðamenningu eyða starfsmenn miklum tíma í að reyna að átta sig á því hvað þeir eiga að gera hverju sinni og hvernig þeir eiga að gera það. Starfsmenn vinna því vinnu sína verr og eru óánægðari. 

 

Schein hefur bent á að hægt er að meta styrk menningar út frá annarsvegar einsleitni og stöðugleika hóps og hins vegar hversu mikið fólk hefur upplifað saman í hversu langan tíma. Dæmi um sterka menningu væri til dæmis hópur sem hefur unnið lengi saman og gengið í gegnum mikla erfiðleika en stendur enn í fæturna. Veik menning væri hjá hópi sem hefur verið saman í stuttan tíma og innan hópsins hafa orðið miklar breytingar og saman hefur hópurinn ekki upplifað neina erfiðleika.

 

Í skrifum Kotter og Heskett kemur fram að vinnustaðamenning og þá sérstaklega sterk vinnustaðamenning geti haft mikil/öflug (e.powerful) áhrif á frammistöðu fyrirtækja. Sterk vinnustaðamenning getur virkjað hópa hratt til að taka áhrifaríkar vel samhæfðar ákvarðanir til að bregðast við áskorunum. Í sterkri vinnustaðamenningu deila stjórnendur sameiginlegum gildum og aðferðum um hvernig  eigi að stunda viðskipti og nýtt starfsfólk tileinkar sér þessi gildi og aðferðir fljótt. Skipulagsheildir með sterka menningu auglýsa oft gildin sín í verkefnalýsingum og hvetja alla stjórnendur til að fylgja þeirri lýsingu. Gildi og aðferðir breytast ekki mikið þó að nýr forstjóri taki við fyrirtæki þar sem gildin og aðferðirnar hafa fest rætur. Kotter og Heskett hafa skilgreint þrjá einkennandi þætti frammistöðu hvetjandi vinnustaðamenningar. Í fyrsta lagi eru fyrirtæki með sterka menningu með fyrirfram vel skilgreind markmið sem allir starfsmenn eru upplýstir um og vinna að því að ná. Í öðru lagi þá virkar sterk menning sem hvatning á starfsmenn til að ná settum markmiðum og í þriðja lagi skapar sterk menning nauðsynlegt utanumhald og stjórn. 

Spurningin er: Er vinnustaðamenning á Reykjalundi sterk eða veik? Ef sterk hvernig getum við virkjað hana til áframhaldandi góðra verka. Ef veik, hvernig getum við styrkt stofnunina enn frekar? 

 

Góða helgi,

Helga 

 

*Pistillinn er unninn upp á meistararitgerð Helgu Pálmadóttur til MS gráðu í stjórnun og stefnumótun 2019 um vinnustaðamenningu hjúkrunarfræðinga í bráðaþjónustu Landspítala 

Til baka