09.08.2024

Föstudagsmolar forstjóra 9. ágúst 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Velkomin aftur!
Föstudagsmolanir okkar koma hér með úr sumarfríi. Sjálfsagt er að byrja molana á því að bjóða ykkur velkomin aftur til starfa eftir sumarleyfi en á þriðjudaginn hófst starfsemin aftur eftir ljómandi gott og langþráð sumarhlé. Vonandi hafið þið sem allra flest náð að hafa það gott, hlaða batteríin og njóta lífsins með þeim hætti sem ykkur líkar best. Þó það sé alltaf gott og gaman að komast í sumarleyfi, finnst mörgum líka gaman að koma aftur til baka, hitta samstarfsfólkið og sjá daglegt líf á Reykjalundinum komast aftur í blóma.
Framundan er spennandi vetur með ýmsum áskorunum í starfinu og það verður gaman að takast á við við að gera glæsilegan Reykjalund ennþá glæsilegri með ykkur. Af ýmsu er þar að taka en á næsta ári fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli. Húsnæðismál Reykjalundar verða stórt mál áfram og læt ég vita um leið og eitthvað frekar verður að frétta þar.
Við höldum líka ótrauð áfram að vinna að ýmsum verkefnum í tenglsum við stefnumótunina sem fram fór í fyrra og reynum að vera dugleg að miðla upplýsingum um gang mála jafnóðum. Nýjasta dæmið er samstarfsamningur við Háskóla Reykjavíkur sem kynntur var í gær. Til upprifjunar voru helstu áherslur okkar flokkaðar í fimm megin flokka, auk kafla um húsnæðismál og fjármögnun.
1. Rétt þjónusta á réttum tíma
2. Aðlaðandi vinnustaður
3. Upplýsinga- og tæknimál
4. Öflugt samstarfsnet um allt land
5. Rannsóknir, kennsla og símenntun
6. Húsnæðismál
7. Fjármögnun

 


 

Almennir starfsmannafundir í vetur – Taktu tímann frá.
Ég vil vekja athygli á því að nú hafa verið boðaðir almennir starfsmannafundir fyrir komandi vetur. Við viljum endilega koma á þeirri hefð að reglulegir fundir fari fram yfir veturinn og er um að ræða almenna upplýsingafundi fyrir okkur starfsfólk þar sem farið er yfir mikilvæg málefni í starfseminni og það sem efst er á baugi hverju sinni. Fundirnir hefjast allir kl 12:15 og líkur 12:55. Þeir verða í samkomusalnum. Endilega takið tímana frá.


Fögnum fjölbreytileikanum.
Hinsegin dagar standa nú yfir og við hér á Reykjalundi fögnum fjölbreytileikanum. Margir úr hópi okkar starfsfólks hafa sýnt stuðning sinn, meðal annars með því að nota regnbogahálsbönd fyrir auðkenniskort sín og regnbogafánanum hefur verið flaggað hér á Reykjalundi undanfarið. Meðfylgjandi myndir voru teknar í vikunni.


Góða helgi!


Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka