Föstudagsmolar forstjóra 28. júní 2024 - Gestahöfundur er Steinunn B. Bjarnarson iðjuþálfi.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Sólin er komin og við fengum sannarlega að njóta hennar á miðvikudaginn þegar starfsmannafélagið okkar hélt glæsilega sumarhátíð fyrir okkur starfsfólk og fjölskyldur. Tæplega 200 manns mættu og áttu saman ánægjulega stund hér á fallegu lóðinni okkar; nutu verðurblíðunnar, gæddu sér á ís og pylsum, hoppuðu í hoppu-köstulum og nutu lífsins í fleiri leikjum og samveru. Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka starfsmannafélaginu kærlega fyrir þetta skemmtilega framtak og ekki síður ykkur öllum sem mættuð og nutu viðburðarins með okkur. Nokkrar myndir frá hátíðinni koma á fréttamiðlum okkar í næstu viku.
Gestahöfundur molanna í dag er Steinunn B. Bjarnarson iðjuþjálfi. Hún segir okkur stuttlega frá spennandi meistaraverkefni sem hún var að ljúka þar sem tilgangurinn var að skoða reynslu kvenna með þunglyndi og/eða kvíða af skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa í félags- og tómstundahóp hjá geðheilsuteymi Reykjalundar. Myndin með molunum var tekin inni á verkstæði iðjuþjálfa og á henni eru frá vinstri Steinunn iðjuþjálfi í geðheilsuteymi, Sif iðjuþjálfi í geðheilsuteymi, Ingibjörg aðstoð við iðjuþjálfun og Dagný iðjuþjálfi í geðheilsuteymi.
Ég vil svo nota þetta tækifæri og bjóða Guðrúnu Björgu Sigurbjörnsdóttur velkomna í Reykjalundar-hópinn en hún er nýr formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf. Jafnframt þakka ég fráfarandi formanni, Önnu Stefánsdóttur, kærlega fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.
Góða og gleðilega!
Bestu kveðjur,
Pétur
Föstudagsmolar 28. júní 2024 – Meistaraverkefni um skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa.
Á dögunum útskrifaðist ég með meistarapróf í heilbrigðisvísindum, geðheilbrigðisfræði, frá Háskólanum á Akureyri. Dagurinn var dásamlegur, Akureyri tók á móti okkur með sól og hita. Í ræðu sinni var rektor þó tíðrætt um snjókomu nokkrum dögum áður en það skal ekki fjölyrt um það hér.
Meistaraverkefnið byggist á rannsókn og var ég svo lánsöm að fá að rannsaka íhlutunarleið okkar iðjuþjálfa í geðheilsuteymi á Reykjalundi. Flest sem starfa á Reykjalundi kannast líklega við verkstæðið í iðjuþjálfun. Iðjuþjálfar í öllum teymum á Reykjalundi nýta verkstæðið sem íhlutunarleið en þar er skapandi iðja notuð til að vinna að mismunandi markmiðum skjólstæðinga. Hjá geðheilsuteymi nefnist hópurinn félags- og tómstundahópur.
Í fjölmörg ár hafa iðjuþjálfar um heim allan notað skapandi iðju sem íhlutun, en þetta er fyrsta rannsóknin sem gerð hefur verið hérlendis á skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa.
Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu kvenna með þunglyndi og/eða kvíða af skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa í félags- og tómstundahóp hjá geðheilsuteymi Reykjalundar. Bæði meðan á endurhæfingu stóð og um þremur mánuðum eftir að endurhæfingu lauk. Rannsóknin var eigindleg og voru tekin tvö viðtöl við átta konur, samtals 16 viðtöl.
Rannsóknin nefnist „Slökun og frí frá hugsunum sem valda vanlíðan: reynsla af skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa í geðheilsuteymi Reykjalundar“, sem er lýsandi fyrir reynslu þátttakenda.
Hér verður stiklað á stóru varðandi niðurstöður rannsóknarinnar en þær verða kynntar nánar síðar. Niðurstöðurnar sýndu að þátttakendur höfðu jákvæða reynslu af skapandi iðju í félags- og tómsundahóp. Þeir upplifðu m.a. betri andlega og líkamlega líðan, bæði í og að lokinni endurhæfingu. Þátttakendur lýstu því hvernig þeir gleymdu sér við iðjuna og fengu um stund frí frá vandamálum. Flestir upplifðu breytingar á félagslegri þátttöku. Þá héldu þátttakendur áfram að nýta leiðbeiningar varðandi líkamsbeitingu við skapandi iðju heima, sem hafði svo áhrif á líkamlega líðan. Það var athyglisvert að niðurstöðurnar sýndu að áhugi þátttakenda á skapandi iðju jókst eftir þátttöku í hópnum og sinntu mun fleiri skapandi iðju eftir endurhæfingu en áður höfðu gert. Sumum var hún t.d. gagnleg til þess að takast á við streitu og kvíða í sínu daglega lífi.
Ég neita því ekki að það var strembið að vinna rannsóknina með vinnu hér á Reykjalundi en það var virkilega áhugavert að sjá hversu jákvæða reynslu þátttakendur höfðu af skapandi iðju í félags- og tómstundahóp. Ekki einungis á meðan endurhæfingunni stóð heldur einnig þremur mánuðum eftir að endurhæfingunni lauk. Í þau ár sem ég hef starfað hér á Reykjalundi hef ég séð fólk vaxa og dafna í gegnum þessa íhlutunarleið. Samt sem áður kom mér á óvart hversu niðurstöðurnar voru afgerandi og sýndu að skapandi iðja í félags- og tómstundahóp gaf þátttakendum enn meira en ég hafði nokkru sinni ímyndað mér. Þannig get ég ekki látið hjá líða að minna á hversu mikilvægt það er að starfsfólk Reykjalundar fái tækifæri til þess að vinna að rannsóknum. Við erum jú stærsta endurhæfingarstofnun landsins og er það skylda okkar að bjóða upp á gagnreynda þjónustu.
Að lokum verð ég að minnast á mikilvægi þess að við sem starfsfólk á Reykjalundi, og bara í okkar daglega lífi, berum virðingu fyrir skapandi iðju, í hvers konar formi sem hún er. Að við forgangsröðum henni kannski aðeins ofar, líkt og önnur áhugamál er þetta ekki eitthvað sem á alltaf að mæta afgangi. Eins og sést þá er þetta iðja sem getur gefið svo ótrúlega mikið.
Steinunn B.Bjarnarson
iðjuþjálfiTil baka