27.06.2024

Guðrún Björg er nýr formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Þriðjudaginn 25. júní síðast liðinn fór fram aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. Þar bar hæst til tíðinda að kjörinn var nýr formaður stjórnar, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir en Anna Stefánsdóttir fráfarandi formaður, hætti í stjórn að eigin ósk.


Reykjalundur í Mosfellsbæ er stærsta endurhæfingarmiðstöð landsins sem á sér merka 79 ára sögu. Núverandi rekstrarfyrirkomulag starfseminnar var tekið upp árið 2020 þegar SÍBS, eigandi Reykjalundar, stofnaði óhagnaðardrifið einkahlutafélag um endurhæfingarstarfsemina, Reykjalundur endurhæfing ehf.


Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. var vel sóttur en fundurinn var opinn öllum áhugasömum um starfsemina. Ávarp flutti Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Marta Guðjónsdóttir rannsóknastjóri kynnti gróskumikið rannsóknastarf á Reykjalundi. Sem áður segir var Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir kjörinn formaður stjórnar og er hún skipuð af SÍBS. Aðrir í stjórn eru Gunnar Ármannsson meðstjórnandi, tilnefndur af fagráði Reykjalundar, Aldís Stefánsdóttir meðstjórnandi, tilnefnd af Mosfellsbæ og Arna Harðardóttir varamaður, skipuð af SÍBS. Fundarstjóri aðalfundarins var Ólöf Kristín Sívertsen, verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ.


Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir er nýr formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar en hún tekur við af Önnu Stefánsdóttur sem verið hefur formaður frá stofnun félagsins árið 2020.
Guðrún Björg er menntuð ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í lýðheilsufræðum. Hún starfaði á Landspítala í rúma fjóra áratugi, þar af í um þrjátíu ár í stjórnunarstörfum. Guðrún Björg er nú tímabundið í hlutastarfi hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ásamt störfum stjórnarformanns.


Um leið og Reykjalundur þakkar Önnu Stefánsdóttur fyrir góð störf í þágu starfseminnar bjóðum við Guðrúnu Björgu hjartanlega velkomna til starfa.


Hópmyndin var tekin á aðalfundinum og á henni eru frá vinstri:
Gunnar Ármannsson stjórnarmaður, Aldís Stefánsdóttir stjórnarmaður, Arna Harðardóttir varamaður í stjórn, Anna Stefánsdóttir fráfarandi stjórnarformaður, Sveinn Guðmundsson formaður SÍBS, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir stjórnarformaður, Sólveig Hildur Björnsdóttir varaformaður SÍBS, Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og Pétur Magnússon forstjóri.

 

Til baka