21.06.2024

Föstudagsmolar forstjóra 21.júní - Gestahöfundur er Inga Hrefna forstöðusálfræðingur

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


Hér koma föstudagsmolanir þessa vikuna en gestahöfundur er Inga Hrefna Jónsdóttir forstöðusálfræðingur sem er með fínustu hugvekju fyrir okkur í sumarbyrjun.
Myndirnar sem fylgja eru tvær að þessu sinni. Reykjalundarmyndina tók Inga Hrefna sjálf á góðum sumardegi frá C-2 hæðinni sem nú er búið að loka og hin er af sálfræðingum Reykjalundar og Russ Harris, sem fjallað er um í pistlinum. 


Ég minni svo á aðalfund Reykjalundar á þriðjudaginn og fjölskylduhátíð starfsmannafélagsins á miðvikudaginn.


Njótið helgarinnar!


Bestu kveðjur,
Pétur


***


Föstudagsmolar 21. júní 2024 – Er sumarið tíminn?


Nú þegar sólargangur er hvað lengstur hér á landi er auðvelt að láta sig dreyma um sólríka sumardaga á svölunum, pallinum eða í sveitasælunni. Vonandi rætast þessir draumar en lífið er lotterí og kannski verður þetta rigningasumarið mikla – hver veit? 


Við höfum ekki stjórn á veðrinu en við getum haft stjórn á ýmsu öðru, til dæmis hvað við gerum eins og Russ Harris höfundur bókarinnar Hamingjugildran (sem Hugrún sálfræðingur þýddi) útskýrir skemmtilega í stuttu myndbandi á netinu sem heitir Valpunkturinn (The Choice Point). Hægt er að nálgast fleiri stutt myndbönd eftir kappann á YouTube. Til gamans má geta að fyrsti kaflinn í Hamingjugildrunni heitir: Lífið er erfitt sem ég geri ráð fyrir að margir tengi við. Við sálfræðingar Reykjalundar vorum öll á vel heppnaðri tveggja daga vinnustofu hjá Russ í Kópavoginum fyrir mánuði síðan sem Rúnar Helgi sálfræðingur skipulagði en hann er mikill ACT áhugamaður.


Annað sem er mér hugleikið þessa dagana er staða Reykjalundar. Við erum að ströggla við mikinn húsnæðisvanda eftir lokanir vegna myglu. Þjappa þurfti starfseminni mjög saman og fækka gistiplássum sem hefur vissulega reynt á. Starfsfólkið var samstíga í þessum miklu tilfærslum og skjólstæðingar sýndu skilning. Þetta átti að vera bráðabirgðalausn sem við vonum að leysist mjög fljótlega með annarri betri bráðabirgðalausn (færanlegu húsnæði). Einnig höfum við verið að ströggla með tæknimálin en bindum vonir við betri tíma eftir ítarlega úttekt og ráðningu Fannars Sólbjartssonar forstöðumanns upplýsinga- og velferðartækni, velkominn í hópinn Fannar!


Á stefnumótunardegi starfsfólks Reykjalundar síðastliðið haust var almenn samstaða um að við viljum efla okkur og vera leiðandi endurhæfingarmiðstöð á Íslandi, veita árangursríka þverfaglega endurhæfingarþjónustu fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda, efla samstarf innan og utan Reykjalundar, efla rannsóknir og kennslu og tengsl við háskóla svo eitthvað sé nefnt. Við erum enn að fóta okkur í að finna leiðir að þessum markmiðum og auðvitað oft skiptar skoðanir en ég hef fulla trú á að okkur takist að gera góðan Reykjalund enn betri út frá gildum okkar: Frumkvæði – Virðing – Árangur. 


Hafið það gott í sumar og góða helgi!


Inga Hrefna Jónsdóttir,
forstöðusálfræðingur.

 

Til baka