14.06.2024

Föstudagsmolar forstjóra 14 júní

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


*Stundaskrár Reykjalundar á rafrænu formi.
Eins og fram hefur komið, urðu þau merku tímamót í sögu Reykjalundar nú í vikunni að allar stundaskrár skjólstæðinga og sjúklinga eru orðnar rafrænar. Í meðferð á Reykjalundi fá allir einstaklingar persónulega stundaskrá fyrir vikuna þannig að meðferðin verði eins markviss og mögulegt er, miðað við þarfir hvers og eins. Hingað til hafa stundatöflur verið prentaðar út með tilheyrandi kostnaði, tíma og pappírsnotkun en nú hefur orðið breyting á. Þó nokkur smávægileg vandamál hafi komið upp hefur þessi breyting almennt gengið mjög vel og mælst vel fyrir.
Mig langar því að þakka undirbúningshópnum í verkefninu en í honum sátu Herdís og Bára frá iðjuþjálfun, Garðar og Ásdís frá sjúkraþjálfun, Astrid heilbrigðisgagnafræðingur, Berglind gæðastjóri og Jónína og Þorbjörg Edda hjúkrunarfræðingar auk Ólafar og Óskars í framkvæmdastjórn. Í sólinni í hádeginu mánudag skálaði hópurinn ásamt fulltrúum í framkvæmdastjórn og stýrihópum meðferðarsviða í tilefni af tímamótunum. Mynd 1 var tekin við það skemmtilega tækifæri.
Jafnframt ber að þakka ykkur öllum fyrir þolinmæðina og ykkar hlutdeild við innleiðinguna.




*Samstarf á Austurlandi skoðað.
Í vikunni funduðum við í framkvæmdastjórn með stjórnendum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Eitt af því sem hefur verið á dagskrá framkvæmdastjórnar eftir stefnumótunarvinnu okkar síðasta haust er aukið samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir. Markmið fundarins var möguleg aðkoma Reykjalundar að uppbyggingu endurhæfingarþjónustu á Austurlandi og samstarf við Heilbrigðisstofnunina varðandi endurhæfingarmál en einnig voru rædd ýmis mál tengd skiplagi, vinnuferlum og stjórnun. Vonandi verður af samstarfi í einhverju formi en við munum kynna málin betur þegar slíkt liggur fyrir. Mynd 2 var tekin á fundinum.


*Fundað með Nýjum Landspítala.
Í vikunni heimsótti ég, ásamt Önnu stjórnarformanni og fulltrúum frá SÍBS, starfsemi Nýs Landsspítala (NLSH ohf.). Þetta fyrirtæki var stofnað á sínum tíma til að hafa umsjón með og stýra byggingu á Nýjum Landspítala fyrir hönd ríkisins. Einnig heldur fyrirtækið utan um nýjar framkvæmdir við Grensásdeildina og Sjúkrahúsið á Akureyri. Markiðið okkar var að fá praktískar upplýsingar og ráð vegna skiplagsferilsins við undirbúning breytingaframkvæmda hér á Reykjalundi sem eru framundan. Þó ekki enn sé komið fjármagn í verkið hjá okkur er ljóst að á næstunni bíður okkar verðugt verkefni við að meta núverandi húsnæði okkar; hvað er hægt að nýta áfram, hvað þarf að rífa og hvar þarf að byggja nýtt. Við slíkar ákvarðanir er að mörgu að huga ekki síst með það að leiðarljósi að ekki er sjálfgefið að það húsnæði sem við viljum nýta áfram verði notað með sama hætti og nú er gert. Það er því ekki seinna vænna en að fara að hefjast handa.
Að fundi loknum gafst okkur kostur á að fá að skoða framkvæmdirnar á Landspítalasvæðinu og var það mjög áhugavert. Að sjálfsögðu varð að taka mynd, mynd 3.


Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðrar og gleðilegrar þjóðhátíðarhelgar.


Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka