07.06.2024

Föstudagsmolar forstjóra gestahöfundur er Berglind Gunnarsdóttir gæðastjóri

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


Þá erum við búin að kjósa okkur nýjan forseta og sumarið er vonandi einhvers staðar á leiðinni til okkar eftir kalsasama viku.
Meðan við bíðum eftir því er ágætt að ylja sér við vangaveltur frá Berglindi Gunnarsdóttur gæðastjóra um hvernig við metum og mælum árangurinn af starfinu okkar hér ásamt því að gefa okkur innsýn í niðurstöðurnar. Berglindi er einmitt gestahöfundur föstudagmolanna í dag en pistil sinn kallar Berglind „Ber endurhæfing ávöxt?“


Góða og gleðilega helgi!


Bestu kveðjur,
Pétur






Föstudagsmolar 7. júní 2024 – Ber endurhæfing ávöxt?



Vorið er tími vaxtar, við sjáum náttúruna lifna og mannfólkið einnig. Á vorin njótum við þess að sjá nemendur í skólum landsins uppskera, flesta vonandi í samræmi við það sem til var sáð. Út lífið erum við einnig ávallt að læra og uppskera árangur af því sem við leggjum til. 


Við á Reykjalundi njótum þeirra forréttinda að fylgja okkar fólki gegnum tímabil vaxta og uppskeru. Suma daga eru skrefin þung, aðra daga léttari en þegar allt kemur til alls eru það markmið hvers einstaklings sem skipta mestu máli. Hvort sem markmiðin felast í því að geta haldið á börnunum, farið í göngu, sinnt félagsstörfum eða eldað kvöldverð skiptir öllu að við spyrjum út í, berum virðingu fyrir og lyftum því upp sem skiptir einstaklinginn mestu máli hverju sinni. Margir koma til okkar uppfullir vonleysis en með von að láni frá meðferðaraðilum geta þeir smátt og smátt farið að feta sína braut upp á við. Sameiginleg markmið einstaklings og fagfólks ætti ávallt að vera til umræðu og leiðarljóss.
En ber endurhæfing þá ávöxt?


Nýlega voru tekin saman á Reykjalundi gögn sem beina sjónum að þeim árangri sem þverfagleg endurhæfing skilar. Stuðst var við mælingar frá Skráningarmiðstöð, Hjarta- og lungnarannsókn og mælingum úr sjúkraþjálfun og íþróttafræði. Til að gera langa sögu stutta má segja að við megum öll mjög vel við una og árangur meðferðar bersýnilegur, hvert sem litið er. Slíkt er ekki sjálfgefið þegar vanlíðan er vaxandi í samfélaginu og meðferðarheldni áskorun í heilbrigðisþjónustu. 
Meðfylgjandi má sjá örfá dæmi um þá árangursmæla sem fjallað verður um í skýrslu undirritaðrar sem væntanleg er nú fyrir sumarlok.




Myndin sýnir breytingu á sjálfsmati þegar einstaklingar eru beðnir um að meta heilsu sína í dag á kvarða 0-100. Róttæk breyting verður á meðaltölum á öllum teymum Reykjalundar fyrir einstaklinga sem útskrifuðust úr endurhæfingu 2023. Matið er hluti af alþjóðlegum lífsgæðakvarða EuroQol EQ-5D-5L sem víða er nýttur í rannsóknum og mati á fjárhagslegum og heilsufarslegum ávinningi í heilbrigðisþjónustu. 


Endurhæfing er fjárfesting sem borgar sig og árangur meðferðar skapar einstaklingnum forsendur til þess að vinna í átt að sínum markmiðum. Framhaldið ræðst svo af mörkum þáttum. Búast má við bakslögum og betri dögum og ljóst er að margir þurfa áframhaldandi stuðning og því eru tengsl við nærþjónustu einstaklings mikilvæg til eftirfylgdar. Aðkallandi er að leggja mat á hvort og hvernig árangur viðhelst þegar út í lífið er komið og hafa gæðastjóri og framkvæmdarstjórn nú lagt grunnin að því að meta stöðu einstaklinga, ári eftir útskrift af Reykjalundi. Þessar upplýsingar eru dýrmætar þegar kemur að því að skipuleggja þjónustuna og meta hvaða áherslur skulu lagðar og hvernig þjónustuferli skuli líta út.


Berglind Gunnarsdóttir,
Gæðastjóri.

Til baka