Föstudagsmolar forstjóra 31.maí 2024
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
*Tiltektardagur Reykjalundar.
Í gær fór fram tiltektardagurinn okkar en þá gafst okkur starfsfólki kostur á að leggja okkar að mörkum við að fegra nærumhverfið hér á Reykjalundi. Hugmyndin með deginum er að hver starfmaður fái tvær klukkustundir til að sinna verkefni við þrif eða tiltekt, innan eða utandyra; sem getur verið allt frá því að taka til í rafrænum gögnum yfir í að fjarlægja illgresi á lóðinni. Voru ýmis þörf verk framkvæmd. Dagurinn endaði svo í grillveislu í garðinum við matsalinn en þar var líka starfsfólk iðjuþjálfunar með blómasölu. Þrátt fyrir að sólin hafi ekki látið sjá sig voru allir í sólskinsskapi.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir daginn. Myndirnar með molunum voru teknar á tiltektardeginum í gær.
*Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. á þriðjudaginn.
Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. verður haldinn þriðjudaginn 4. júní kl 15 í samkomusalnum. Það var vorið 2020 sem SÍBS stofnaði sérstakt félag um rekstur endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi. Félagið er óhagnaðardrifið einkahlutafélag með sérstaka stjórn sem er óháð stjórn SÍBS. Félagið heldur opna aðalfundi, líkt fleiri heilbrigðisstofnanir gera. Á dagskrá verða, auk hefðbundinna aðalfundarstarfa, ávarp frá Sigurði H. Helgasyni forstjóra Sjúkratrygginga og erindi frá Mörtu Guðjónsdóttur rannsóknastjóra Reykjalundar um mikilvægi rannsóknastarfs á Reykjalundi. Fundarstjóri er Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Eins og áður segir eru allir velkomnir þannig að gaman væri að sjá ykkur sem flest.
*Fjölskylduhátíð starfsmannafélagsins 5. júní.
Að lokum vil ég minna á fjölskylduhátíð starfsmannafélagsins okkar fer fram næsta miðvikudag, 5. júní, hér á lóð Reykjalundar. Markmiðið með fjölskylduhátíðinni er fyrst og fremst samvera starfsmanna og fjölskylda þeirra. Hátíðin verður utandyra og búið er að semja við veðurguðina að vera með okkur í liði.
Vonandi hafa sem allra flest ykkar tök á að vera með enda gaman að prófa þetta fyrirkomulag við að fagna sumrinu og eiga góðar stundir saman.
Svo er sérdeilis spennandi kosningahelgi framundan. Um leið og ég óska ykkur góðrar helgar vil ég hvetja sem allra flesta til að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn.
Bestu kveðjur,
Pétur