Föstudagsmolar forstjóra 17. maí 2024.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Dagur lækna er í dag og alþjóða dagur hjúkrunar var 12. maí.
Í dag er dagur lækna haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti hér á landi en stjórn Læknafélags Íslands ákvað fyrir nokkru að 17. maí ár hvert fengi sæmdarheitið Dagur lækna. Þessi dagur er valinn því hann tengist náið sögu lækninga á Íslandi. Fyrsti sérmenntaði læknir landsins, sem einnig varð fyrsti landlæknirinn, Bjarni Pálsson, fæddist þennan dag árið 1719.
Við óskum læknum Reykjalundar, sem og öðrum læknum, kærlega til hamingju en hjá okkur starfa alls 14 læknar. Myndin með molunum í dag er einmitt af hluta þeirra þegar deginum var fagnað í hádeginu í dag.
Jafnframt vil ég óska hjúkrunarfræðingum Reykjalundar, sem og annars staðar, til hamingju með alþjóðadag hjúkrunarfræðinga sem var þann 12. maí síðast liðinn. Sá dagur tengist fæðingu Florence Nightingale (1829-1910) sem oft hefur verið nefnd „konan með lampann“ en hún var frumkvöðull á sviði hjúkrunarfræði og talin af mörgum upphafsaðili að nútíma hjúkrun.
Heimsóknir frá Nýfundnalandi, Kína og Texas.
Við hér á Reykjalundi fá reglulega heimsóknir af ýmsu tagi enda erum við stolt að kynna það merka starf sem starfsfólk hér vinnur. Þó flestir gestir séu íslenskir eru hér öðru hverju heimsóknir erlendis frá. Í vikunni kom til dæmis sendinefnd frá Nýfundnalandi og heimsótti okkur, þar sem tæknimál og fjarskiptaþjónusta voru sett á oddinn. Landfræðilega eigum við margt sameiginlegt með Nýfundnalandi og forvitnilegt var að heyra um áskoranir þeirra í málaflokkunum og hvar þau eru stödd við að leysa úr málunum. Til gamans má svo geta þess að í júní erum við bæði að taka á móti hópi frá Kína annars vegar og Texas hins vegar þar sem mikill áhugi er að heyra um Reykjalundarmódelið og hvernig við gerum hlutina.
Tiltektardagur og fjölskylduhátíð framundan.
Að lokum vil ég minna ykkur á tvær spennandi dagsetningar sem eru framundan í Reykjalundarlífinu. Fimmtudaginn 30. maí höldum við árlegan tiltektardag þar sem við fegrum nærumhverfið með því að róta í beðum, sópa og hreinsa milli hellna og/eða tökum til í rafrænum gögnum svo dæmi séu tekin. Á næstunni mun Guðbjörg mannauðsstjóri kynna hugmyndalista að verkefnum, fyrirkomulagi og grillveisluna í lokin, svo endilega takið daginn frá ef þið eruð ekki þegar búin að því.
Jafnframt vil ég svo minna á sumarhátíð starfsmannafélagsins okkar sem fram fer seinni partinn miðvikudaginn 5. júní. Þá verður okkur félagsmönnum og fjölskyldum boðið upp á spennandi skemmtun og fjör hér á Reykjalundarlóðinni. Endilega takið daginn frá og gerið ykkur klár. Stjórn starfsmannafélagsins mun kynna viðburðinn betur þegar nær dregur.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur