10.05.2024

Föstudagsmolar forstjóra 10. maí 2024 - Gestahöfundur er Ólöf Árnadóttir.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Í vikunni héldum við kveðjuboð fyrir starfsfólk sem látið hefur af störfum hér á Reykjalundi undanfarna mánuði. Þegar einstaklingar láta af störfum eru oft minni kveðjuboð með nánasta samstarfsfólki en við hér á Reykjalundi viljum gjarnan fá að kveðja með formlegum hætti enda hafa margir gefið Reykjalundi stóran hluta af starfsævi sinni, verið í samskiptum við fjölda aðila og eru þar með orðnir hluti af sögu Reykjalundar og í raun endurhæfingar á Íslandi. Eðlilega komast aldrei allir en glæstur hópur mætti í kveðjuboðið á þriðjudaginn og myndin sem fylgir molunum í dag er einmitt af þeim heiðursgestum kveðjuboðsins sem komust. Þetta eru frá vinstri: Anna María læknir, Þóra Birna ritari, Ingunn sjúkraliði, Halldóra gjaldkeri, Svava hjúkrunarfræðingur, Ágústa Dúa hjúkrunarfræðingur, Nína Kolbrún hjúkrunarfræðingur og Ólafur umsjónarmaður fasteigna. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir góð störf í þágu Reykjalundar og óskum þeim alls hins besta.

Annars er Ólöf Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, gestahöfundur föstudagsmola í dag þar sem hún fræðir okkur um Heilsuveru og Meðveru.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur




Föstudagsmolar 10. maí 2024 – Heilsuvera og Meðvera.

Á næstu mánuðum munu sjúklingar okkar á Reykjalundi verða áskynja breytinga í aðgengi og upplýsingum um endurhæfingameðferð sína. Í samstarf við fyrirtækið Helix ætlum við á Reykjalund að innleiða Meðveru sem er sýn starfsmanna í sjúkraskrá en mun birtast sjúklingum sem þiggja meðferð á Reyklundi í Heilsuveru. Teljum við að með öruggri samskiptagátt og bættu aðgengi sjúklinga að upplýsingum muni þjónusta okkar á Reykjalundi breytast og verða enn betri.

Heilsuvera er vefur með heilbrigðisupplýsingum fyrir almenning og er ábyrgð Embætti Landlæknis. Vefurinn er bæði opinn með upplýsingum um heilsu og áhrifaþætti en einnig með lokaða gátt „mínar síður“. Þar er hægt á öruggan hátt að nálgast upplýsingar sem skráðar eru innan heilbrigðiskerfisins. Heilsuvera virkar á tölvum, spjaldtölvum og snjallsímum. Í nokkrum teymum á Reykjalundi er farið að nota Heilsuveru og hefja notkun til samskipta við sjúklinga. Sjúklingar fá aðgang á sérstöðu svæði í Heilsuveru sem heitir „meðferð“. Þar undir er flipi sem ber heiti þeirrar meðferða sem veitt er.

Tilgangur þessara þjónustu er að bæta aðgengi sjúklinga að því teymi sem sér um meðferð þeirra og auka öryggi sjúklinga.
Markmið með notkun Heilsuveru á Reykjalundi er að:
• Auka þjónustu og bæta aðgengi sjúklinga að fræðslu og samskiptum við teymið sitt.
• Gera örugg rafræn samskipti sjúklinga og Reykjalundar möguleg.
• Veita upplýsingar um heilsu og áhrifaþætti í endurhæfingarmeðferð og eftir meðferð.
• Gera sjúklingum kleift að hafa betri yfirsýn yfir samskipti sín við Reykjalund og jafnframt hafa betri stjórn og yfirsýn yfir eigin meðferð.

Undir svæðinu „meðferð“ í Heilsuveru verður hægt að sjá það fræðsluefni sem sent hefur verið, ásamt spurningarlistum. Hægt er að svara spurningarlistum og skoða fræðsluefni á þeim tíma sem sjúklingur getur sinnt. Í gegnum Heilsuveru er einnig hægt að hafa samband við starfsmann í því teymi sem sér um meðferðina í gegnum svo kallaða skilaboðagátt. Skilaboð og svör við spurningarlistum eru vöktuð og brugðist við þeim eins fljótt og auðið er eða í síðasta lagi næsta virka dag. Öll samskipti sem fara í gegnum mínar síður þar með talið fyrirspurnir og svör, birtast og varðveitast í sjúkraskrá.
Aðgangur opnast við fyrstu tímabókun hjá Reykjalundi. Tilgangurinn er að bæta aðgengi að þjónustu meðferðarteymisins og að efla öryggi sjúklinga sem er enn heima og einnig þeirra sem hafa hafið meðferð hér á Reykjalundi.

Bestu þakkir,
Ólöf Árnadóttir,
Framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Til baka