12.04.2024

Föstudagsmolar forstjóra 12. apríl 2024 - Gestahöfundur er Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

 

Hér koma molarnir þessa vikuna og nú er það Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri sem er gestahöfundur hjá okkur.

Hún er að vanda með áhugaverða hugvekju um mannleg samskipti.

Ég vil svo taka undir með Guðbjörgu og óska okkur öllum hér á Reykjalundi til hamingju með jafnlaunavottunina.

 

Njótið helgarinnar!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 


Föstudagsmolar 12. apríl 2024 –  Vorið, vonin og við …..

Með hækkandi sól finn ég hvernig lundin verður léttari, orkan eykst og það er ákveðin eftirvænting í loftinu. Ég hugsa með mér á hverjum morgni, skyldi vorið vera komið núna.

Það er samt svo auðvelt að slá okkur niður. Mitt í jákvæðni, tilhlökkun og eftirvæntingu byrjar aftur að snjóa. Snjóinn festir ekki hér fyrir sunnan þessa dagana en við sjáum hann enn falla til jarðar og oft er það eitt og sér nóg til að veikja von okkar.

 

En það er eitt sem ég staðnæmist sérstaklega við þessa dagana. Framundan eru forsetakosningar og við höfum trúlega öll skoðun á og væntingu til þess að kjörinn verði forseti fólksins sem leiði þjóð okkar áfram af virðingu, alúð, réttsýni og festu. Að því sögðu hryggir það mig að verða vitni að því hvernig við leyfum okkur að tala um og skrifa um annað fólk. Það er eins og allar reglur, jafnt skráðar sem óskráðar eigi ekki við þegar sérfræðingar götunnar hefja upp raust sína.

Það er svo heilbrigt og eðlilegt að við höfum ólíka sýn og skoðun á manneskjum og málefnum. En það er súrt að sjá og heyra þegar einhver ákveður að vega að heiðri annarra með ómaklegum hætti. Það er líka sorglegt að verða vitni að því að einhver upphefji sjálfan sig á kostnað annarra.

Það er eitt að gagnrýna og annað að rýna til gagns. Við vitum öll að við getum sagt einn og sama hlutinn á tvo gjörólíka vegu. Reynum að vanda okkur, staldra við og hugsa hvaða orð við veljum að nota í samskiptum við allt og alla. Og þetta á við í öllum okkar samskiptum, bæði í leik og starfi.

 

Um daginn hlustaði ég á fyrirlestur konu sem ég lít mikið upp til. Hún sagði að það dýrmætasta sem við gefum hvert öðru er hlustun, virk hlustun. Ég er henni svo hjartanlega sammála. Í hringiðu daglegs amsturs, fjölgar einmanna fólki ört. Þá er sama hvort við horfum til eldra fólksins okkar eða unga fólksins okkar, á öllum aldursskeiðum er einmanna einstaklingum að fjölga.

Við breytum ekki öðru fólki en ef við stöldrum við, byrjum sjálf að skoða, hvað get ég gert til að láta fólkinu í kringum mig líða betur og temjum okkur að nota falleg orð, kurteisi og virðingu í öllum okkar samskiptum þá er ég sannfærð um að smá saman fækki þeim einstaklingum sem tala af gáleysi og vanvirðingu.

 

Um nýliðna páska fékk ég málshátt úr páskaeggi sem hljómar svona: „Sálargæði gefa andlitsfegurð“ Ég veit ekki hvort það sé bara vegna þess að ég er orðin svo gömul en þetta þykir mér sannarlega vera orð að sönnu.

 

Og að lokum langar mig til að segja, til hamingju við öll á Reykjalundi og Hlein, við höfum nú hlotið jafnlaunavottun.  Reykjalundur og Hlein leggja ríka áherslu á að tryggja öllum starfsmönnum jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Myndin sem fylgir í dag er einmitt til marks um vottunina og er okkur nú öllum heimilt að nota merkið í undirskriftum okkar á gögnum sem tengd eru Reykjalundi og Hlein.

 

Verum góð við hvert annað og hlaupum jákvæð og brosandi út í vorið sem er rétt handan við hornið.

 

Með góðri kveðju,

Guðbjörg Gunnarsdóttir

Mannauðsstjóri

Til baka