05.04.2024

Föstudagsmolar forstjóra 5. apríl 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hlýir straumar til vina á Múlalundi.
Eins og flestir hafa séð í fréttum undanfarið og kynnt var á starfsmannafundi okkar 20. mars síðast liðinn, er erfitt ástand hjá mörgum vina okkar á Múlalundi eftir að breytingar voru kynntar þar um miðjan mars. Í stuttu máli snýst þetta um að Vinnumálastofnun, með aðkomu Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Fjármálaráðuneytisins, hefur sagt upp samningi sínum við Múlalund frá næstu áramótum. Þetta þýðir að ríkið hættir að fjármagna stöður á fjórða tugs einstaklinga með skerta starfsgetu á Múlalundi og hyggst flytja þessar stöður út á hinn almenna vinnumarkað. Hins vegar harma Múlalundur og SÍBS að stjórnvöld sjái sér ekki lengur fært að styðja við atvinnutækifæri fólks með skerta starfsgetu á Múlalundi. Vinnumálastofnun er þegar byrjuð að finna skjólstæðingum sínum á Múlalundi ný störf. Hafin er endurskipulagning Múlalundar í breyttu umhverfi en of snemmt er að segja hvert sú vinna leiðir.
Um leið og við sendum vinum okkar á Múlalundi hlýjar og góðar kveðjur vonumst við til að farsælar lausnir finnst á þessu málum sem allra fyrst.

Tiltektardagur Reykjalundar 30. maí.
Fimmtudaginn 30. maí ætlum við að halda tiltektardag Reykjalundar: Hugmyndin er að dagurinn verði í svipuðum dúr og í fyrra, þ.e. lagt til að hver starfsmaður leggi fram um tveggja tíma vinnu yfir daginn til að fegra nærumhverfi sitt. Ef einhver vill vera utandyra þá verður eitt og annað í boði sem hægt er að gera þar. Ætlunin er svo að enda í léttu grilli eins og í fyrra.
Endilega takið daginn frá en þetta verður nánar kynnt þegar nær dregur.

Hjólað í vinnuna – Áfram Reykjalundur.
Síðustu 20 ár eða svo hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“. Markmiðið er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þrjár vikur í maí ár hvert og er tímabili 8.-28. maí þetta árið.
Við á Reykjalundi ætlum nú að koma inn í þetta verkefni af krafti enda er verkefni sem þetta mjög í okkar anda. Við hvetjum alla til að taka þátt og um að gera að byrja æfa sig. Við  sendum nánari upplýsingar um þátttöku Reykjalundar þegar nær dregur.
Nánari upplýsingar um hjólað í vinnuna má finna hér:
https://hjoladivinnuna.is/

Að lokum vil ég geta þess að myndin með molunum er af hressum hópi sálfræðinema sem heimsótti okkur í dag. Hópurinn er í meistaranámi í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands og hafa þau verið að kynna sér ýmsa staði fyrir mögulegt starfsnám.

Góða helgi!
Pétur

 

Til baka