06.03.2024

Tvö hundruð þátttakendur á fræðsluráðstefnu Reykjalundar um offitu.

Tæplega 200 manns tóku þátt í fræðsluráðstefnu Reykjalundar fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem fram fór síðasta mánudag, 4. mars, á alþjóðadegi offitu. Markmiðið ráðstefnunnar var að vinna að bættri meðferð einstaklinga með offitu.
Algengi offitu hefur aukist mjög í vestrænum löndum síðustu áratugi, meðal annars á Íslandi Er nú talið að tæp 30% fullorðinna og 7% barna séu með offitu. Aukningin segir mikið til um hvernig þjóðfélag okkar hefur breyst. Tæknivæðing hefur haft áhrif á daglegar venjur og matvælaframleiðslu og streita er meiri en áður sem getur leitt til hormónabreytinga. Það má því segja að offita sé birtingarmynd breyttra hátta.
Á þessari fræðsluráðstefnu Reykjalundar fjölluðu ýmsir sérfræðingar úr ólíkum starfsstéttum heilbrigðiskerfisins um þær miklu framfarir sem hafa orðið í þekkingu á offitusjúkdómi og þróun í meðferðarúrræðum.
Velt var upp spurningum eins og hvernig getum við tekist á við þennan samfélagslega sjúkdóm sem veldur mörgum alvarlegum heilsubresti? Hvernig vinnum við gegn fordómum í garð þeirra sem glíma við offitu og nálgumst sjúkdóminn með faglegum hætti, af virðingu og skilningi? Einnig var rætt um mikilvægi aukinnar samvinnu heilbrigðisstarfsfólks.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér: https://www.facebook.com/share/p/taxpuWBKAWDjk9T6/?mibextid=WC7FNe

Til baka