Föstudagsmolar forstjóra 9. febrúar 2024.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Á skíðum skemmti ég mér…
Það hafa verið kaldir dagar utandyra undanfarið. Við látum það nú ekkert stöðva Reykjalundarlífið og þar sem við höfum einstaklega útsjónarsamt starfsfólk hafa kostirnir í stöðunni verið nýttir. Einn af lykilþáttum í starfseminni okkar er hreyfing og því er frábært að geta boðið áhugasömum skjólstæðingum upp á skíðagöngu sem skemmtilegan valmöguleika í meðferðinni. Við höfum því notað öll tækifæri undanfarið til að leggja skíðagöngubrautir hér á lóð Reykjalundar.
Í vikunni var einmitt starfsmannaleikfimin okkar skíðaganga á sólríku síðdegi, en þar var það Steinunn H. Hannesdóttir heilsuþjálfari sem leiðbeindi mér og nokkrum snillingum í starfsmannahópnum í þessari skemmtilegu íþrótt. Myndin með molunum var einmitt tekin við það tilefni.
Við þetta má bæta að það er heldur betur líf í starfsmannafélaginu okkar. Félagið býður upp á gönguskíðanámskeið fyrir okkur starfsfólk í mars, það er æsispennandi félagsvist framundan og ekki má gleyma árshátíðinni seinni partinn í mars. Reykjalundur rokkar!
Saga Reykjalundar rituð og gefin út á 80 ára afmælinu.
Eins og fram hefur komið fagnar Reykjalundur 79 ára afmæli nú í febrúar. Það þýðir að það er 80 ára stórafmæli á næsta ári. Gaman er að segja frá því að unnið er að útgáfu bókar um sögu Reykjalundar sem ætlunin er að gefa út á afmælisárinu. Það er Pétur Bjarnason sem ritstýrir verkefninu en hann skrifaði einmitt Sögu SÍBS sem gefin var út á 75 ára afmælis samtakanna árið 2013, Sigur lífsins. Þar kom Reykjalundur eðlilega mikið við sögu. Það eru því hæg heimatökin fyrir Pétur og einfaldar vinnuna mikið. Ýmsir verða þó kallaðir til aðstoðar og vonumst eftir góðu samstarfi við aðila innan og utan Reykjalundar sem áhuga hafa og þekkja vel til sögunnar – fyrir frásagnir, yfirlestur, ábendingar og fleira.
Til fróðleiks má geta þess að verkefnið er á ætlun og er ekki greitt af rekstrarkostnaði endurhæfingarþjónustunnar.
Endanleg dagskrá fræðsluráðstefnu Reykjalundar kynnt – 4. mars.
Í gær kynntum við opinberlega dagskrá ráðstefnunnar okkar, „Offita – Fagleg nálgun á samfélagstengdum sjúkdómi“ sem fram fer á Grand hóltel mánudaginn 4. mars, kl 13-16. Þar bjóðum við heilbrigðisstarfsfólki innan og utan Reykjalundar til áhugaverðar fræðslu um málaflokkinn. Gaman er að segja frá því að við höfum fengið miklar og góðar viðtökur. Þátttaka er án endurgjalds en gestir eru beðnir að tilkynna þátttöku fyrir fimmtudaginn 29. febrúar á netfangið reykjalundur@reykjalundur.is
Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um hvort ráðstefnan okkar 4. mars verði send út í streymi. Upphaflega var það ekki ætlunin enda töluvert kostnaðarsamt því slíkt þarf að gera með vönduðum hætti. Við erum samt að skoða málin og munum auglýsa vel ef af verður.
Jafnframt hafa komið fram fyrirspurnir hvort Reykjalundur sé lokaður meðan ráðstefnan fer fram svo allt starfsfólk geti tekið þátt. Þó við viljum gjarnan að sem flestir njóti gengur slíkt ekki upp. Við erum með skyldur við fjölda sjúklinga sem margir hverjir hafa beðið lengi eftir meðferð, við erum með tvær sólarhringsdeildir (Miðgarð og Hlein) sem ekki er hægt að loka og eðlilega eru einhverjir í starfsmannahópnum sem ekki hafa sérstakan áhuga á umfjöllunarefninu. Þetta þarf því að púsla saman fyrir þá sem hafa áhuga á að fara, rétt eins og þegar fólk tekur sér námsleyfi, starfsdaga, frí vegna styttingu vinnuviku eða orlof.
Vonandi geta samt sem allra flestir áhugasamir í okkar hópi tekið þátt.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur