Föstudagsmolar forstjóra 26. janúar 2024.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Gleðilegan bóndadag og þorra!
Bóndadagur er í dag og þar með hefst hinn forni mánuður þorri. Ýmsar hefðir hafa tengst þorra og bóndadegi gegnum aldirnar. Án þess að þykjast vera sérfræðingur í þeim siðum eða í fornu tímatali er þorrinn óvenju seint á ferðinni. Bóndadagur, sem ávallt er á föstudegi, hefði í raun átt að vera fyrir viku síðan en skýringin er sú að ef árið á undan er rímspillisár, eins og var í fyrra, þá ber fyrsta dag þorra, bóndadaginn, upp á 26. janúar.
Við látum þetta nú ekki trufla okkur enda hafa margar nýjar og skemmtilegar hefðir myndast á síðustu árum tengdar þorranum og bóndadegi, ekki síst þorrablótin sem farið hafa blómstrandi í flestum bæjum og sveitum og ekki síður hverfum í Reykjavík. Víða eru þorrablótin orðin að stærstu samkomum í sveitarfélögum og er beðið með mikilli eftirvæntingu. Um síðustu helgi sótti ég einmitt um þúsund manna þorrablót hér í Mosfellsbænum sem var mikil skemmtun.
Við hér á Reykjalundi erum engir eftirbátar í þjóðlegum siðum. Eldsnemma í morgun bauð Guðbjörg mannauðsstjóri karlpeningnum í starfmannahópi Reykjalundar, til bóndadagsveislu. Þar sveif þjóðlegur andi yfir vötnum og boðið var upp á hákarl, brennivín og sviðasultu auk þess sem við vorum leystir út með sérmerktum Reykjalundar-þorrabjór og gómsætu meðlæti.
Á myndinni með molunum í dag má einmitt sjá nokkra glaðbeitta í bóndadagsveislunni í morgun. Við þökkum kærlega fyrir okkur!
Nýtt fagráð skipað
Á Reykjalundi starfar fagráð skipað af forstjóra til þriggja ára í senn. Ber forstjóra samkvæmt 13. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag Reykjalundar. Varðandi nánari umfjöllun um skipan og verklag fagráðs er vísað til 12. gr. reglugerðar nr. 1111/2020 um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa. Fagráð Reykjalundar er skipað 5-7 fulltrúum starfandi fagstétta innan stofnunarinnar. Skipað er í ráðið til 3 ára í senn. Nánari upplýsingar um starfsemi fagráðs má finna í starfsreglum fagráðs.
Óvenju mikil forföll hafa undanfarna mánuði komið upp í því fagráð sem var skipað síðast. Framkvæmdastjórn ákvað því að endurskipa ráðið með formlegu hætti eftir auglýsingu þar um í desember síðast liðnum. Það er því gaman að segja ykkur frá að nýtt fagráð hefur verið skipað frá janúar 2024-desember 2026 og í því sitja:
Andrea Hlín Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur
Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur
Edda Björk Skúladóttir, iðjuþjálfi
Elínbjörg Ellertsdóttir, félagráðgjafi (er í tímabundnu leyfi)
Eyþór Björnsson, læknir
Kristín Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari
Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur
Að lokum þakka ég kærlega fyrir fína mætingu á starfsmannafundinn á miðvikudaginn. Eins og fram kom þar mætti gangur í úrlausn húsnæðismála okkar gjarnan vera hraðari en við leyfum ykkur að fylgjast með um leið og eitthvað nýtt er að frétta.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur