08.01.2024

Föstudagsmolar forstjóra 8. janúar 2024 - Gleðilegt ár!

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þessir fyrstu föstudagsmolar ársins eru heldur seint á ferðinni af ýmsum ástæðum en lítum bara á að fall sé fararheill í þeim málum.
Ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs og gæfuríks árs. Vonandi hafa sem allra flest ykkar náð að njóta hátíðanna sem best. Jafnframt þakka ég enn og aftur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á síðasta ári. Það er ekki annað hægt en að vera fullur tilhlökkunar í garð þessa nýja árs. Okkar hér á Reykjalundi bíður fjöldi spennandi verkefna, bæði ný og gömul.

Ráðstefna Reykjalundar um endurhæfingu verður 4. mars.
Mig langar að vekja athygli á því að árleg ráðstefna Reykjalundar um endurhæfingu sem sett verður á laggirnar frá og með þessu ári verður haldin mánudaginn 4. mars (en ekki 29. febrúar eins og áður hafi verið kynnt).  Endilega takið daginn frá en ákveðið hefur verið að tileinka ráðstefnuna umræðuna um offitu en Alþjóða dagur offitu er einmitt þessi sami dagur. Dagskráin er á lokametrunum og verður kynnt á næstu dögum. Ráðstefnan verður eftir hádegi og fer fram á Grand hótel.
Það er því vel við hæfi myndin með molunum í dag sé að efnaskipta- og offituteyminu okkar. Tveggja blaðsíðna umfjöllun um teymið er einmitt í nýjasta tölublaði Heimildarinnar sem kom út um helgina og verður birt sérstök frétt um umfjöllunina á næstu dögum.

Starfsmannafundir í hádeginu 24. janúar og 20. mars.
Að lokum langar mig að minna í tvo almenna starfsmannafundi sem boðaðir hafa verið á þessu ári. Annars vegar 24. janúar þar sem við ræðum um helstu málefni Reykjalundar í upphafi árs og hins vegar 20. mars þar sem við beinum sjónar okkar meira að stefnu Reykjalundar og hvar við stöndum í þeim málum, ekki síst í framhaldi af umfangsmikilli vinnu okkar síðasta haust.

Þó það sé gott að komast í frí, finnst mér líka alltaf gott að koma til baka í hefðbundna daglega vinnurútínu. Nú er starfið okkar komið á fullt eftir fríið og því vil ég nota þetta tækifæri og bjóða ykkur velkomin aftur – jafnframt hlakka ég til að takast á við, með ykkur, hið spennandi ár 2024!

Njótið vikunnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka