24.11.2023

Föstudagsmolar forstjóra 24. nóvember 2023. Gestahöfundur er Bára Sigurðardóttir, forstöðuiðjuþálfi.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar þessa vikuna en gestahöfundur í dag er Bára Sigurðardóttir, forstöðuiðjuþjálfi. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að pistillinn tengist iðjuþjálfun og myndin sem fylgir molunum í dag er fá starfsdegi iðjuþjálfa sem fram fór nýlega.
Um leið og ég þakka starfsfólki eldhússins kærlega fyrir flotta og ljúffenga kalkúnaveislu í gær sendi ég ykkur öllum bestu kveðjur um góða helgi.

Bestu kveðjur,
Pétur


Alþjóðlegur dagur iðjuþjálfunar var 27. október.  Heimssamband iðjuþjálfa og iðjuþjálfar um  allan heim nýta daginn til kynningar á faginu og störfum sínum.  Á heimsvísu eru iðjuþjálfar um 650 þúsund talsins.  Fræðslunefnd iðjuþjálfafélagsins stóð fyrir viðburði á deginum og hélt málþingi þar sem kynnt voru verkefni og rannsóknir um:  Iðjuþjálfun og vinnuvernd, Mat á kulnun í foreldrahlutverkinu og Þroskafjör -Verkefni á vegum Hafnafjarðarbæjar um þjónustu við börn hælisleitenda.
Samstaða og samfélag var yfirskrift dagsins í ár og óhætt er að segja að við höfum síðustu vikur verið minnt á mikilvægi samstöðu og að við erum hluti af samfélagi sem þarf að standa saman þegar náttúruvá steðjar að íbúum þessa lands.

Starfsdagur iðjuþjálfa á Reykjalundi var 3. nóvember sl. þá fengum við kynningu hjá Unni Óttarsdóttir listmeðferðarfræðing á námskeiði í listmeðferð og síðan hélt hún vinnusmiðju fyrir okkur. Enduðum daginn á heimsókn í Handverkshúsið þar sem kynnt var starfsemin og þau námskeið sem þar eru í boði. Vel heppnaður dagur í alla staði.

Lífinu fylgir bæði gleði og sorg og langar mig í lok þessara mola að minnast Kristjönu Fenger iðjuþjálfa og lektors við Háskólann á Akureyri, er lést þann 11. nóvember sl., 72 ára að aldri. Um árabil starfaði Kristjana á Reykjalundi og tók virkan þátt í uppbyggingu meðferðarstarfsins. Kristjana var virkur fræðimaður og lagði mikið að mörkum til Iðjuþjálfasamfélagsins, tók þátt í stofnun námsbrautar í iðjuþjálfun og þróun faggreinarinnar til framtíðar. Hún kom að þýðingu og staðfærslu matstækja innan iðjuþjálfunar, gaf út handbækur tengt þeim og er með fjölda birtra vísindagreina. Kristjana snerti strengi okkar iðjuþjálfa á Reykjalundi með virku samstarfi, kennslu og gleðiríkri framkomu.
Blessuð sé minning hennar.

Aðventan er á næsta leiti og óska ég samstarfsfólki ánægjulegrar aðventu, munið að njóta ekki þjóta.

Kær kveðja.
Bára Sigurðardóttir,
forstöðuiðjuþjálfi.

Til baka