Föstudagsmolar forstjóra 17. nóvember 2023.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hugurinn er hjá Grindvíkingum.
Ég veitheld ég tala fyrir okkur öll hér á Reykjalundi þegar ég segi að hugur okkar sé hjá Grindvíkingum þessa dagana. Það að þurfa rýma heilt bæjarfélaga á örskömmum tíma er eitt og sér mjög óvenjulegt en það sem verra er, er að mjög óljóst er hvenær fólk getur snúið aftur til Grindavíkur og þá einnig með hvaða hætti það verður. Erfitt er fyrir okkur hin að setja okkur spor þeirra sem glíma við þessar aðstæður og nú þegar nokkrir dagar eru liðnir frá rýmingunni er fólk kannski að átta sig betur á þessum nýja raunveruleika. Ýmsar daglegar athafnir, atvinnan, skólinn og margt fleira í hefðbundnu lífi hefur breyst verulega og verður aldrei samt aftur. Næstu daga og vikur fara í ýmsar stórar og erfiðar ákvarðanatökur. Ljóst er að bæði tilfinningalegt tjón og fjárhagslegt er mikið.
Landspítali, hjúkrunarheimili og fleiri heilbrigðisstofnanir hafa undanfarið verið að bregðast við ástandinu og greiða úr málum, meðal annars þurfti að koma íbúum hjúkrunarheimilisins Víðihlíðar í öruggt skjól. Þar var brugðist hratt og vel við. Í sambandi við þessa atburði höfum við hér á Reykjalundi verið í samtali við aðrar heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisráðuneyti, Almannavarnir og Mosfellsbæ um hvort og þá hvernig Reykjalundur geti komið að málum ef frekari ógnir blasi við. Bæði höfum við í framkvæmdastjórn skoðað hvernig hægt væri að koma að málum ef frekari brottflutnings íbúa er þörf af Suðurnesjum og eins ef létta þarf af Landspítala til að þar sé hægt að taka á móti stærri hópi sjúklinga, til dæmis ef óvæntir atburðir verða skyndilega.
Eins og áður segir er erfitt að setja sig í spor Grindvíkinga og því kannski erfitt að átta sig á hvað er viðeigandi eða tímabært á þessum tímapunkti. Við hér á Reykjalundi munum að sjálfsögðu aðstoða af góðum hug og vilja eins og hægt er og sameinumst í því að senda Grindvíkingum öllum hlýjar kveðjur.
Fróðleysa – Túlka og þýðingarþjónusta.
Í vikunni fór fram áhugaverður fyrirlestur fyrir okkur starfsfólk á vegum Fróðleysu sem er fræðslunefnd okkar hér á Reykjalundi. Fróðleysa hefur á síðustu árum boðið upp á mjög fjölbreytta og áhugaverða fyrirlestra fyrir okkur starfsfólk. Þetta starf er mjög mikilvægt og er ákveðin vettvangur til að hlusta og kynnast ýmsum hlutum og atriðum sem oft er lítið hugsað um í amstri dagsins. Fyrirlesari Fróleysu að þessu sinni var Angélica Cantú Dávila sem fræddi okkur um túlkaþjónustu, sem er vaxandi hluti af daglegu starfi fjölmargra sem starfa í heilbrigðisþjónustu og víðar. Angélica er sérfræðingur í rómönsku málum, kennari hjá Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri túlkaþjónusu TMÍ.
Myndin með molunum í dag var einmitt tekin við þetta tilefni en á myndinni eru frá vinstri Nadía Borisdóttir, forstöðufélagsráðgjafi, Angélica og Kristjana Jónasdóttir sjúkraþjálfari frá Fróðleysu.
Úttekt á upplýsingatæknimálum Reykjalundar.
Eitt af þeim verkefnum sem komin eru í gang í kjölfar stefnumótunarvinnu okkar í september er að gera ítarlegt stöðumat á núverandi stöðu upplýsingatæknimála Reykjalunar og greina tækniþörf okkar til næstu ára. Samið hefur verið við Ólaf Aðalsteinsson ráðgjafa að leiða þessa vinnu sem mun klárast í desember. Hann hefur mikla reynslu af upplýsingatæknimálum, ekki síst í heilbirgiðskerfinu og því fengur að fá hann til að aðstoða okkur. Sjálfsagt verður leitað til ýmsra starfsmanna vegna upplýsingagjafar og vona ég að allir taki vel í slíkar beiðnir.
Að lokum minni á ég á kalkúnaveisluna okkar á fimmtudaginn – Góða helgi.
Bestu kveðjur,
Pétur