27.10.2023

Föstudagsmolar forstjóra 27. október 2023 - Gestahöfundur er Erla Ólafsdóttir formaður starfsmannafélagsins.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þriðjudagurinn í þessari viku var heldur betur óvenjulegur en þann dag var boðað kvennaverkfall þar sem mælst var til þess þennan dag að konur og kynsegin fólk þessa lands myndi leggja niður launuð og ólaunuð störf allan daginn og mótmæla sérstaklega vanmati á störfum kvenna, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum. Eins og fram hefur komið styðjum við hér á Reykjalundi málstaðinn heilshugar. Velferð og öryggi sjúklinga er ætíð í öndvegi og þrátt fyrir að lágmarksþjónusta væri í boði gátu ekki allir sem vildu yfirgefið vinnustaðinn. Þó að að við karlarnir værum að gera okkar besta kom algerlega í ljós að konur eru ómissandi hluti af starfsemi Reykjalundar. Allt gekk þetta þó vel fyrir sig og sendi ég ykkur bestu þakkir fyrir það.

Jafnframt langar mig að þakka öllum þeim ykkar sem höfðuð tök á að vera með okkur á kynningarfundi um stefnumótunina okkar sem er í gangi. Ég mun á næstunni senda ykkur frekari upplýsingar um það sem þar var kynnt en meðal annars kynntum við nýtt orðalag á hlutverki Reykjalundar, framtíðarsýn, áherslur okkar næstu árin og lista yfir verkefni sem nú eru að fara í gang tengd þessu.

Jafnframt óska ég iðjuþjálfum okkar og öllum iðjuþjálfum til hamingju með alþjóðlegan dag iðjuþjálfunar sem er í dag en þema dagsins er „Samstaða og Samfélag“.

Annars kemur hér kveðja frá gestahöfundi föstudagsmolanna þessa vikuna, Erlu Ólafsdóttur, formanni starfsmannafélagsins okkar. 
Góða helgi, njótið vel!
 
Bestu kveðjur,
Pétur



Föstudagsmolar 27. október 2023.

Fyrir hönd stjórnar Starfsmannafélags Reykjalundar vil ég þakka frábæra þátttöku í haustdagskrá félagsins sem náði hámarki með haustfagnaði í Hlégarði þann 28.september sl. Samhliða haustdagskránni hefur verið vinna í gangi við önnur mikilvæg verkefni t.d hvernig náum við betur til allra félagsmanna okkar, að fá afslætti fyrir félagsmenn hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og svo fékk sumarbústaður félagsins í Kjarnaskógi smá andlitslyftingu fyrir veturinn.

Ég vil einmitt nota þetta tækifæri til að minna alla félagsmenn á þessa perlu sem Starfsmannafélagið á fyrir norðan. Bústaðurinn er staðsettur í sumarhúsabyggð í Kjarnaskógi og er þetta hálfgert ævintýraland í miðjum skógi í dásamlegu umhverfi.

Úthlutun fyrir páska og sumar er auglýst sérstaklega en á öðrum árstímum gildir reglan “fyrstur kemur fyrstur fær”.
Myndirnar tvær eru einmitt úr bústaðnum. 

Góða helgi öllsömul,

Erla Ólafsdóttir,
formaður Starfsmannafélags Reykjalundar.

Til baka