20.10.2023

Föstudagsmolar forstjóra 20. október 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Bleiki dagurinn er í dag.
Október er bleiki mánuðurinn, tileinkaður vitundarvakningu um krabbamein hjá konum. Vitundarvakningin nær hámarki í dag þegar Bleiki dagurinn fer fram. Þá eru allir hvattir til að sýna átakinu stuðning með því að klæðast bleiku. Við hér á Reykjalundi höfum tekið virkan þátt síðustu ár og alltaf gaman að fylgjast með undirbúningi og taka þátt. Það er mikið búið að skreyta, eldhúsið er með bleikan glaðning og margir hafa klæðst bleiku í dag eins og reyndar síðustu daga. Molunum í dag fylgja nokkrar myndir frá Bleikum Reykjalundi sem gefa sýnishorn af stemningunni.

40 ára afmæli lungnaendurhæfingar á Reykjalundi.
Í gær fögnuðum við 40 ára afmæli lungnaendurhæfingar á Reykalundi en slík endurhæfing hófst formlega í núverandi mynd árið 1983. Þetta 40 ára ferli hefur verið afar farsælt enda hefur Reykjalundur verið einstaklega heppinn með metnaðarfullt og vandað starfsfólk. Afmælisdagskráin í gær var blanda af fræðslu og skemmtun og tókst ákaflega vel. Í næstu viku munum við birta sérstaka frétt um afmælið ásamt myndasyrpu.
Ég vil nota þetta tækifæri og óska lungnateyminu og okkur öllum til hamingju með áfangann. Jafnframt vil ég senda bestu þakkir til lungnateymisins sem hafði veg og vanda af afmælisdagskránni í gær sem var sérlega glæsileg. Vel gert.

Sumarhlé á starfi Reykjalundar 2024: 13. júlí - 5. ágúst.
Ég vildi upplýsa ykkur um að framkvæmdastjórn hefur ákveðið að gert verður hlé á meðferðarstarfi Reykjalundar sumarið 2024 í 3 vikur.
Tímabilið er frá og með laugardeginum 13. júlí og til og með mánudagsins 5. ágúst sem jafnframt er frídagur verslunarmanna.
Meðferðarstarf hefst svo aftur þriðjudaginn 6. ágúst.

Happdrætti SÍBS í átaki.
Að lokum vildi ég svo segja ykkur frá því að Happdrætti SÍBS er í sérstöku átaki þessa dagana. Það verður æ erfiðara að halda uppi útgefnum miðafjölda í hefðbundnu flokkahappdrætti vegna harðari samkeppni í peningaspilum innanlands jafnt sem erlendis. Meðvitund almennings um tengsl Happdrættis SÍBS og Reykjalundar virðist vera að minnka, einkum í yngri aldurshópum. Til að mæta hvoru tveggja hyggst SÍBS gera tilraun með að hringja út til fólks og bjóða því að greiða einskiptisstyrk vegna Reykjalundar. Aftur verður haft samband við þennan hóp síðar og honum boðin þátttaka í Happdrætti SÍBS. Með þessu vonum við að hægt sé að þróa nýja stoð undir fjármögnun framkvæmda hér á Reykjalundi og auka samtímis meðvitund almennings um Reykjalund og SÍBS. Á sama tíma er ástæða til að minna á mikilvægi þess að sem allra flestir séu meðvitaðir um það hvernig þátttaka í Happdrætti SÍBS gerir Reykjalundi kleift að bæta aðstöðu til endurhæfingar. Þar er sannarlega að finna hina öflugustu bakhjarla.

Góða og gleðilega helgi.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka