Hollvinasamtök Hleinar fengu höfðinglega gjöf og héldu samverustund.
Hollvinasamtök Hleinar efndu til samverustundar fyrir íbúa og hollvini fimmtudagskvöldið 21. september sl. á Hlein. Stefán Yngvason formaður Hollvinasamtakanna og Anný Lára Emilsdóttir framkvæmdastjóri Hleinar, tóku þar við gjöf sem gefin var til minningar um íbúa Hleinar, Einar Óla Sigurðarson, sem lést í fyrravor. Systir Einars Óla heitins, Tanja Dagbjört Sigurðardóttir, hljóp ásamt vinkonum sínum, Margréti Berglindi Ólafsdóttur og Ingu Hrönn Ásgeirsdóttur, í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og söfnuðu þær hvorki meira né minna en 312.000 krónum. Hollvinasamtökin nýttu þessa fjárhæð til að styrkja Hlein til kaupa á hágæða baðbekk fyrir íbúa Hleinar en gamli bekkurinn var úr sér genginn.
Ellý Björnsdóttir matráður Hleinar töfraði fram veitingar fyrir veislugesti eins og henni einni er lagið. Dúettinn Þeir tveir sáu um að halda uppi fjörinu með söng og almennum fíflagangi sem lagðist afar vel í mannskapinn enda er gleði og léttleiki eitt af því sem hefur alla tíð einkennt starfsemi Hleinar.
Meðfylgjandi eru myndir frá þessari góðu samverustund. Þeir sem vilja kynna sér betur Hollvinasamtök Hleinar er bent á facebookslóðina Hollvinasamtök Hleinar | Facebook eða hringja í síma Hleinar 585-2092.
Til baka