15.09.2023

Föstudagsmolar forstjóra 15. september 2023 - Gestahöfundur er Guðrún Jóna Bragadóttir.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Ég vil byrja á þakka fyrir frábæra mætingu á stefnumótunardaginn okkar sem fram fór síðasta föstudag. Það var virkilega gaman að sjá hve margir voru tilbúnir að taka þátt og upplifa kraftinn í loftinu auk frábærra umræðna þar sem hugmyndirnar sannarlega flæddu. Það býður því spenanndi verk að að vinna úr afrakstrinum en niðurstöður verða kynntar 25. október, eins og áður hefur verið kynnt.

Gestahöfundur föstudagsmolanna í dag er Guðrún Jóna Bragadóttir, forstöðunæringarfræðingur, sem fjallar á áhugaverðan hátt um starf efna- og offituteymisins okkar og ýmislegt fleira.

Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur
Pétur

***

Föstudagsmolar 15. september 2023.

Kæra samstarfsfólk,

Síðastliðin föstudag unnu stjórnendur og starfsmenn Reykjalundar að stefnumótun og framtíðarsýn á Reykjalundi. Ég er bjartsýn og trúi því að framundan séu áhugaverðir tímar fyrir stærstu endurhæfingarstofnun landsins. Ég trúi því líka að vegur næringarfræðinnar innan Reykjalundar eigi eftir að vaxa mikið á allra næstu árum.  Næringarfræðin er mikilvægur og sjálfsagður þáttur í endurhæfingu innan Reykjalundar og ætti að vera innan allra annarra heilbrigðisstofnana. Undirrituð hefur starfað sem næringarfræðingur í rúm 25 ár og hefur mikla þekkingu og reynslu af því að leiðbeina fólki með offitu.  Það hefur vissulega margt breyst á þessum árum.  Það er löngu úrelt að halda því fram að það nægi að „borða minna og hreyfa sig meira“ til að léttast. Ef við borðum of lítið bregst líkaminn m.a. við með því að hægja á brennslunni og svengd eykst.  Ástæður sjúkdómsins geta verið margar og flóknar og í dag er offita viðurkennd sem langvinnur efnaskiptasjúkdómur þar sem verður m.a. truflun á birgðastjórnun líkamans. Á Reykjalundi hefur verið starfandi þverfaglegt teymi sem veitir heildræna meðferð og endurhæfingu fyrir fólk með offitu.  Ludvig Guðmundsson læknir var hvatamaður að stofnun Næringarteymis árið 1995. Ludvig var framsýnn og lagði frá upphafi áherslu á að fá næringarfræðing til liðs við sig.  Teymið hefur heitið ýmsum nöfnum í gegnum tíðina; næringarteymi, O-teymi og offituteymi.  Mögulega endurspegla þessar nafnabreytingar að einhverju leyti aukna þekkingu á sjúkdómnum í gegnum árin. Að mínu mati endurspeglar núverandi nafn teymisins, Efnaskipta- og offitusvið, vel þá þekkingu og þann skilning sem við höfum á þessum flókna sjúkdómi í dag.  Árið 2001 hóf teymið samstarf við Landspítalann við undirbúning fyrir hjáveituaðgerðir.  Í þá daga var aðgerðin gjarnan kölluð „megrunaraðgerð“.  Á þessum árum þótti ástæða til að ítreka að þetta væri engin „töfralausn“ og sú umræða var uppi að fólk veldi „einföldu“ leiðina ef það færi í aðgerð.  Enn í dag eru uppi fordómar gagnvart þeim sem fara í efnaskiptaaðgerðir og gagnrýnin oft óvægin  Þetta á einnig við um lyfjameðferðir sem nú bjóðast.  Það er gjarnan talað um „megrunarlyf“ og  fólk varað við því að ekki sé um „kraftaverkalyf“ að ræða því rannsóknir sýni að þeir sem hætta að nota lyfin þyngist aftur.  En á þetta ekki einmitt við um mörg lyf?  Ef  einstaklingur fer á t.d. blóðþrýstingslyf og hættir svo að taka þau má gera ráð fyrir að blóðþrýstingurinn hækki. Af hverju er því haldið fram að fólk með offitu vilji „kraftaverkalyf“ eða töfralausn ? Gætu leynst fordómar í þeirri fullyrðingu ? Gæti verið að enn og aftur sé verið að ýja að því að fólk með offfitu vilji bara „einfaldar lausnir“ ??  Vissulega er það með þessi lyf eins og mörg önnur að þau geta verið vandmeðfarin en það er efni í aðra grein.  

Efnaskipta- og offitusvið Reykjalundar starfar samkvæmt viðurkenndum klínískum leiðbeiningum og slíkar leiðbeiningar voru gefnar út á íslensku árið 2020.  Í þeim er lögð áhersla á þverfaglega og heildræna nálgun og unnið með margvíslegar orsakir offitunnar.  Þegar það á við er gripið til lyfjameðferðar og/eða aðgerða.  

En er nægt framboð af þjónustu fyrir fólk með offitu og veit fólk hvert það á að leita eftir faglegri aðstoð og stuðningi? Ég tel að efla þurfi og fjölga meðferðarúrræðum. Fræðsla er mikilvæg og vel upplýst og fordómalaust heilbrigðisstarfsfólk með góða þekkingu á sjúkdómnum, orsökum og afleiðingum verður að vera aðgengilegt. Reykjalundur hefur verið leiðandi í meðferð og endurhæfingu fólks með offitu mörg sl ár.  Innan Efnaskipta- og offitusviðsins starfar hópur fagfólks með djúpa þekkingu og mikla reynslu. Aðsókn á Efnaskipta- og offitusvið Reykjalundar er mikil og endurspeglar þá miklu þörf sem ríkir og því mjög mikilvægt að efla þá starfsemi verulega.

Það hefur ýmislegt jákvætt breyst á þeim rúmum 25 árum sem ég hef starfað sem næringarfræðingur og því ber að fagna.  En því miður eru fordómar enn miklir og leynast víða. Umræðan er ekki alltaf falleg.  Skortur á samkennd, neikvætt viðhorf og niðrandi umræða gagnvart sjúkdómnum og einstaklingum með offitu getur verið meiðandi.  Fólk fer oft mikinn á samfélagsmiðlum, hefur sterkar skoðanir og lætur miður falleg orð falla um fólk með offitu.  Það er mjög sárt að upplifa, heyra og verða vitni að slíku og því mikilvægt að halda áfram að uppræta fordóma í samfélaginu okkar.  Það er full ástæða til að minna á mikilvægi þess að vanda sig í allri umræðu þegar börn eiga í hlut.  Það getur farið mjög illa með barnssálir að vera gagnrýndar fyrir holdarfar sitt og nýstir amk mitt hjarta.  

Það er hvort tveggja mikilvægt og áhugavert að velta fyrir sér hvernig samfélagið okkar hefur þróast og mögulega ýtt undir sjúkdóminn offitu sl. ár með þversagnakenndum skilaboðum og umhverfi. Því miður eru þau gömlu skilaboð enn við líði að það sé ekki erfitt að létta sig eða ná tökum á þyngd, það þurfi bara að ,,taka sig á“ borða minna, hreyfa sig meira og fylgja ákveðnum tískubylgjum í mataræði. Samhliða því erum við í umhverfi sem er yfirfullt af mat og oft mikið unnum mat (ultra processed food) sem er mikið auglýstur. Afleiðingarnar geta birst í óheilbrigðu sambandi við mat og gert ástandið verra. Við þurfum öll að taka höndum saman og vinna að öflugum forvörnum, fræðslu og stuðningi til að fyrirbyggja og þegar það á við meðhöndla offitu.   

Að lokum langar mig að minna á „Gulan september“ sem er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígforvörnum.  Slagorðin  „Er allt í gulu“ og  „er allt í gulu á þínum vinnustað“ eiga að vísa til samkenndar, þess að láta sig náungann varða og hlúa saman að geðheilsunni. Í ár er sérstök áhersla lögð á geðrækt á vinnustöðum.

Eigið öll góða helgi og njótið vel!

Guðrún Jóna Bragadóttir,
forstöðunæringarfræðingur

Til baka