01.09.2023

Föstudagsmolar forstjóra 1. september 2023 - Gestahöfundur er Sigurður Viktor Úlfarsson.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þá er september genginn í garð og einungis 114 dagar til jóla. Spennandi vetur bíður okka framundan eftir sólríkt sumar.
Föstudagsmolarnir í dag koma frá nágrönnum okkar á Múlalundi en gestahöfundur molanna í dag er Sigurður Viktor Úlfarsson, framkvæmdastjóri Múlalundar, vinnustofu SÍBS.
Við sendum góðar kveðjur yfir á Múlalund um leið og ég óska okkur öllum góðrar helgar.

Bestu kveðjur
Pétur



Kveðja frá Múlalundi.

Með þessum föstudagsmola færi ég ykkur góðar kveðjur okkar á Múlalundi vinnustofu SÍBS.

Við stofnun Múlalundar vinnustofu SÍBS árið 1959 skrifaði Guðmundur Löve, einn af forsvarsmönnum SÍBS eftirfarandi orð, sem hefðu svo sannarlega getað verið skrifuð í gær:

„...Á meðal þeirra sem í dag teljast öryrkjar, eru fjöldamargir sem gætu afkastað miklu verki, ef þeir fengju starf við sitt hæfi. Sumir þessara manna hafa reynt mánuðum og árum saman að komast í létta vinnu, án árangurs.

Þeir hafa því oft misst kjarkinn og sætt sig við að verða að lifa á örorkubótum aðgerðarlausir á heimilum sínum. Þessum mönnum á vinnustofan að geta hjálpað út í lífið á nýjan leik, fyrst með léttri vinnu og síðar með því að koma þeim út í athafnalífið í störf, sem þeim henta.

Segja má að hér sé í fyrsta skiptið gerð tilraun með slíka vinnustofu og verður reynslan að skera úr um gagnsemi hennar.“
Guðmundur Löve, 1959

Síðan þá hafa þúsundir einstaklinga með skerta starfsorku af ýmsum orsökum, fengið tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum á Múlalundi í góðum félagsskap samstarfsfólks. Mörg hafa áður farið í gegnum meðferð á Reykjalundi. Með dugnaði, virðingu og vinsemd að leiðarljósi, þar sem hverjum og einum er mætt á sínum forsendum, gerum við okkar allra besta til að skapa aðstæður þar sem fólk upplifir öryggi og virðingu í eftirsóknarverðu vinnuumhverfi.

Viðskiptavinir um allt land njóta góðs af þeim vörum sem framleiddar eru á Múlalundi. Vasar hanga á speglum þúsunda bíla á bílasölum landsins, nemendur í 40 grunnskólum nýta skólamöppur af Múlalundi, viðskiptavinir veitingastaða um allt land handfjatla matseðla frá Múlalundi, dagbækur og dagatöl Múlalundar eru ferðafélagar margra allt árið um kring, um 15 þúsund myndlyklafjarstýringar fengu nýlega framhaldslíf í hringrásarhagkerfinu eftir að hafa farið í gegnum hendur Múlalundarfólks sem kom þeim aftur í sitt besta form, tugþúsundir ferðafólks nýtir landakort í vösum frá Múlalundi, gestabækur og minningarbækur eru þátttakendur í stórviðburðum í lífi fólks í sorg og gleði. Svona má lengi telja þau áhrif sem vinnan á Múlalundi hefur úti í samfélagið á hverjum degi. Dýrmætustu áhrifin eru þó á fólkið okkar, sem fær tækifæri til að tilheyra góðum hópi og vera virkir þátttakendur í samfélaginu og láta til sín taka.

Með starfsemi Reykjalundar og Múlalundar vinnur SÍBS og starfsfólk þess ómetanlegt starf í að efla fólk og styrkja til bættra lífsgæða. Einhver sagði að þótt við getum kannski ekki bjargað heiminum, þá getum við oft bjargað heimi einhvers. Megi okkur bera gæfa til að halda því áfram um ókomna tíð.
Sjáumst í verslun Múlalundar.

Með Múlalundarkveðju,
Sigurður Viktor Úlfarsson, framkvæmdastjóri Múlalundar vinnustofu SÍBS

Til baka