12.07.2023

Glæsilegur stofnfundur Hollvinasamtaka Hleinar.

Í gær fór fram fjölmennur stofnfundur Hollvinasamtaka Hleinar í blíðskapar veðri. Tilgangur félagsins er að styðja við þá starfsemi sem fram fer á vegum Hleinar í samráði við starfsfólk og yfirstjórn Hleinar.  Tekjustofn félagsins eru árgjöld og aðrar tekjur sem félagið kann að afla. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að  styðja við bakið á starfseminni á Hlein, meðal annars með viðburðahaldi fyrir íbúa og gjöfum og öðrum stuðningi við starfsemi Hleinar. Í stjórn voru kosin Stefán Yngvason sem formaður, Halldóra Vífilsdóttir sem verður gjaldkeri og Kristjana Knudsen sem verður ritari stjórnar. Varamaður stjórnar var kjörin Jóhanna A. Jónsdóttir. 
Hlein er hjúkrunarsambýli sem staðsett er hér í Mosfellsbæ, rétt við Reykjalund. Hlein er heimili fyrir einstaklinga sem hafa flóknar þjónustuþarfir, bæði andlega og líkamlega. Íbúar Hleinar hafa hlotið varanlegan skaða af völdum sjúkdóma eða slysa sem leitt hefur til verulegrar skerðingar á hæfni þeirra til að sinna daglegum þörfum. Um sjö íbúa er að ræða sem eru háðir aðstoð allan sólarhringinn. 
Hlein er starfrækt á vegum SÍBS í miklu samstarfi við Reykjalund og var byggt á árunum 1990-1992, að stórum hluta fyrir söfnunarfé sem Lions-hreyfingin aflaði með sölu á Rauðu fjöðrinni.
Öllum er velkomið að gerast félagar í Hollvinasamtökum Hleinar og er árgjaldið 5000 kr. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Anný Láru Emilsdóttur framkvæmdastjóra Hleinar í gegnum netfangið annylara@reykjalundur.is eða í síma 585 2092 á dagvinnutíma.
Hér má svo finna Facebook-síðu Hollvinasamtakanna.
https://www.facebook.com/groups/655697153275324

Til baka