27.06.2023

Reykjaborg sigruð – Starfsmannaleikfimin í sumarfrí.

Hluti af endurhæfingu Reykjalundar eru reglulegar fjallgöngur á fellin í nærumhverfinu, Reykjafell (269m) eða Helgafell (216m). Fjallganga er oft mikill sigur og eftirminnilegur fyrir marga sjúklinga enda fátt eins nærandi og að ganga úti í náttúrunni. Sú næring á við okkur öll og því var vel við hæfi að enda starfsmannaleikfimi vetrarins á að fara í góða fjallgöngu. Í síðasta hreyfitímanum gekk vaskur hópur starfsmanna frá Reykjalundi, upp Húsadal og á Reykjaborgina. Við nutum útsýnis þaðan í smá vindi en fundum svo skjólið á niðurleið í Uxamýri og gerðum veitingum skil á pallinum hjá Maríu iðjuþjálfa áður en farið var heim að horfa á landsleik Íslands gegn Portúgal. Fyrir áhugasama um tölur var þessi gönguhringur alls 2,5 klst., vegalengd 9,5 km og hækkun 259m.

Togarinn Reykjaborg bar nafn þessa fells sem við gengum á en skipið var smíðað í Frakklandi 1927 og þá stærsti togari íslenska flotans. Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi. Þann 10 mars 1941 var Reykjaborg stödd suðvestur af Íslandi þegar þýskur kafbátur skaut á togarann í myrkri. Þrír skipverjar lifðu af og komust á fleka þar sem einn þeirra lést af sárum sínum.
Nánar um þessa árás má lesa hér http://sagnabrunnur.blogspot.com/2010/10/
Sagan gefur göngunni meira vægi en útiveran og góður félagsskapur gerir allar göngur betri.

Til baka