Föstudagsmolar forstjóra 9. júní 2023 - Gestahöfundur er Ella Björt Teague.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Þá er upp runninn enn einn föstudagurinn. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komu á starfsmannafundinn í hádeginu á miðvikudaginn, ekki síst þar sem þetta var nákvæmlega meðan sólin skein, þá fáu klukkutíma sem hún hefur sést undanfarnar vikur. Ella Björt Teague, taugasálfræðingur og formaður taugateymis, er gestahöfundur molanna í dag sem fylgja hér að neðan. Þar koma fram áhugaverðar vangaveltur um heilann og sagan segir að hún hafi einnig lagt mikla natni við tökur á ljósmyndinni sem fylgir.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur
Pétur
Heilinn er stórkostlegt undur, ekki satt?
Á einhvern óskiljanlegan hátt eiga hugsun okkar, tilfinningar og hegðun sér undirstöðu í þessari gráu taugaflækju. Hvernig má það vera að 86 milljarðar taugafrumna sem mynda að meðaltali 60 trilljón taugatengingar geti unnið saman á skilvirkan hátt, svona alla jafna?
Svarið virðist að stórum hluta liggja í skipulögðu samspili sérhæfingar og samskipta. Í sjónberkinum eru t.d. ótrúlega sérhæfðar taugafrumur sem bregðast einungis við hreyfingu í ákveðna átt. Upplýsingar frá þessum taugafrumum væru til lítils nýtar ef þær væru svo ekki sendar áfram til frekari úrvinnslu og samþættingar. Framheilinn tekur þannig við boðum hvaðanæva úr heilanum, samþættir þessar upplýsingar og gefur boð út frá markmiðum okkar (þurfum við t.d. að hægja á okkur eða beygja til vinstri við akstur). Berist ekki öll nauðsynleg boð til framheilans eða sé starfsemi hans skert á einhvern hátt hefur hann ekki lengur forsendur til að sinna hlutverki sínu eins og hann hefði annars gert, oft með alvarlegum afleiðingum fyrir einstaklinginn.
Reykjalundur sem heili og heilinn í Reykjalundi
Engu er líkara en að þetta einstaka skipulag náttúrunnar hafi skilað sér inn í starfsemi og vinnumenningu Reykjalundar. Hér starfar fagfólk sem sinnir gegnir sérhæfðu hlutverki en tekur jafnframt dýrmætan tíma til að starfa saman og skiptast á upplýsingum svo að taka megi tillit til margra ólíkra þátta og samspili þeirra á milli; líkamlegra, andlegra, hugrænna og félagslegra. Þetta fyrirkomulag veitir okkur tækifæri til að vinna með fjölþættan, margslunginn vanda út frá þörfum og markmiðum skjólstæðinga okkar sem erfitt er að sinna annars staðar. Samskiptin virðast e.t.v. tímafrek og kostnaðarsöm til skamms tíma litið en skila sér margfalt þegar til lengri tíma er litið. Segja má að samskipti og samráð okkar á milli, og ekki síst við skjólstæðinga okkar, gegni því svipuðu hlutverki og framheilinn.
Í heimi Excel skjalanna þar sem oft virðist tilviljanakennt hvaða dálkum er bætt við í formúluna og hverjum sleppt verður sífellt mikilvægara að við séum öll meðvituð um sérhæfingu og sérstöðu Reykjalundarheilans, sérstaklega gagnsemi framheilans, og dugleg að miðla því áfram til ráðamanna!
Hafi myndlíkingin farið fyrir ofan garð og neðan hjá einhverjum fylgir mynd til að gera hana áþreifanlegri.
Lifið heil!
Ella Björt Teague,
taugasálfræðingur og formaður taugateymis