26.05.2023

Föstudagsmolar 26. maí 2023 - Gæði og þjónusta ofar öllu!

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolarnir þessa vikuna en gestahöfundar eru gæðastjórarnir okkar, Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir. Þær nefna ljómandi fínan pistil sinn Gæði og þjónusta ofar öllu!
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hvítasunnuhelgar og vonandi náið þið að njóta vel!

Bestu kveðjur
Pétur


Föstudagsmolar 26. maí 2023 - Gæði og þjónusta ofar öllu!

Þó svo að veðurguðirnir brýni raust sína og sýni okkur allar útgáfur þessa dagana skal víst heita að á dagatalinu sé komið vor. Að vori er gott að líta yfir farin veg, njóta uppskeru vetrarins og horfa á hvað hefur áunnist.

Kerfisbundnar árangursmælingar á Reykjalundi eru að komast á fullt skrið en þær eru einmitt hluti af gæðavísum á stofnun eins og okkar. Samantekt á fyrstu niðurstöðum hafa verið kynntar í hverju teymi fyrir sig auk þess sem niðurstöður skýrslu um árangursmælingar 2022 voru kynntar framkvæmdarstjórn og í framhaldi af því Endurhæfingaráði sem er samstarfsvettvangur um endurhæfingu þvert á velferðarkerfi ráðuneyta. Auk þess er áætlað að kynna niðurstöður með sama hætti fyrir forsvarsmönnum Sjúkratrygginga Íslands en ein af skyldum okkar skv. þjónustusamningi er að gera grein fyrir árangri þeirrar þverfaglegu endurhæfingar sem hér fer fram. 

Öll eigum við í huga okkar sögur af sjúklingum þar sem þverfagleg endurhæfing á Reykjalundi hefur skipt sköpum og erum meðvituð um skyldur okkar og ábyrgð gagnvart okkar fólki. Forsenda þess að við getum gert vel grein fyrir okkar mikilvæga starfi liggur þó einnig í getu okkar til kerfisbundinnar og samfelldrar samantektar á mælanlegum árangri líkt og nú er að verða raunin. Margir hafa lagt hönd á plóg og fyrstu skref í samræmdum árangursmælingum hafa verið tekin á Skráningarmiðstöð þar sem andlegir þættir og lífsgæði hafa verið forgrunni í samræmi við tillögur frá þverfaglegum hópi sérfræðinga hér í húsi. Í næstu skrefum munum við sjá kerfisbundna samantekt á beinum líkamlegum mælingum auk þess sem á hausti komanda munu gæðastjórar óska eftir samtali við hvert meðferðarteymi um sértæka gæðavísa fyrir þjónustu við einstaka sjúklingahópa ef þörf er á.

Starfsfólk Reykjalundar má vera gríðarlega stolt af því starfi sem hér er unnið. Vitnisburð um framúrskarandi þjónustu það má finna m.a. í þjónustukönnun meðal sjúklinga sem nú er keyrð allt árið um kring með samantekt einu sinni á ári. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem koma á Skráningarmiðstöð til mælinga við útskrift nýta tækifæri sitt til að taka þátt í þjónustukönnun. Margir láta ekki nægja að svara hefðbundnum svarmöguleikum heldur tjá sig einnig í  beinum texta. Yfir 90% af slíkum skilaboðum innihalda kveðjur til starfsfólks og bera vott um djúpt þakklæti. Áberandi er hve margir nefna að starfsfólk hafi gefið sér tíma til að hlusta og einhugur er um að það hafi skipt sköpum í allri meðferð. Hrós og þakklæti nær þvert yfir húsið til starfsfólks í matsal, meðferðaraðila, starfsfólks í móttöku og svo mætti lengi telja.

Í þjónustukönnun fáum við þó einnig gagnlegar ábendingar, bæði varðandi starfsemina sjálfa sem og aðbúnað og skipulag en markmið með slíkri könnun er einmitt að ná því fram sem betur mætti fara í þjónustunni. Gæðastjórar áttu í janúar fund með framkvæmdarstjórn þar sem beinum ábendingum var komið á framfæri og munu á næstunni eiga annað slíkt samtal þar sem farið verður yfir niðurstöður heilt yfir húsið og ábendingar ræddar. Gæðastjórar koma svo til með að kynna niðurstöður í hverju teymi fyrir sig nú í júní og full ástæða til að leyfa sér að hlakka til þeirra funda. Von okkar er að niðurstöður nýtist í umræðu um þróun þjónustunnar og það sem betur má fara. 

Sameiginleg ábyrgð okkar allra, hvaða hlutverki sem við gegnum í starfseminni, er að standa áfram vörð um þá góðu þjónustu sem hér er veitt. Um það snýst þetta jú allt.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þær Guðlaugu Jóhannesdóttur deildarritara og Yrju Dögg Kristjánsdóttur móttökuritara sem ásamt öðrum skapa mikilvæga samfellu í þeirri þjónustu sem veitt er. 

Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir

Til baka