04.05.2023

Stefnumótun komin á fullt.

Stefnumótun komin á fullt.
Eins og kynnt hefur verið, munum við hér á Reykjalundi nota næstu mánuði til að móta stefnu til næstu 5 ára þar sem hlutverk, framtíðarsýn og áherslur Reykjalundar verða skilgreindar. Einnig er mikilvægt að skilgreina mælanleg markmið og út frá þeim nauðsynlegar aðgerðir. Reykjalundur stendur á ákveðnum tímamótum og þurfum að svara ýmsum stórum og mikilvægum spurningum. Dæmi um slíkar spurningar eru: Ætlum við að einbeita okkur að sérhæfðri endurhæfingaþjónustu eða viljum við fara meira í átt að annari endurhæfingu? Erum við með rétt meðferðarteymi eins og er? Eru einhver teymi sem ætti að bæta við eða á að fækka þeim eða sameina? Vinna við kortlagningu og skipulag mönnunarsamsetningar meðferðteymanna sem nú stendur yfir tengist þessu auðvitað mikið. Í dag eru tvö meðferðarsvið á Reykjalundi og við þurfum að ræða hvernig við viljum að samvinnu innnan þeirra sé háttað. Ýmisir tala fyrir aukinni samvinnu milli meðferðteymanna á hvoru sviði fyrir sig og þá er forvitnilegt að heyra hugmyndir um hvernig nákvæmlega ætti slík samvinna að vera. Stórt mál tengd húsnæðinu okkar er uppröðun starfseminnar inn í húsið, til dæmis hvort núverandi staðsetningar meðferðateyma séu heppilegar eða er önnur uppröðun heppilegri: Ættu allir í sama meðferðarteymi að vera staðsettir saman á gangi eða í álmu?
Ýmsir vinnuhópar verða í þessu ferli og fór vinnufundur hjá greiningarhópi einmitt fram í dag þar sem þessi mynd var tekin. Hápunkti vinnunnar verður svo náð föstudaginn 8. september, þegar öllu starfsfólki verður boðið að taka þátt í sérstökum stefnumótunardegi sem kynntur verður síðar.
Stefnumótunin er framkvæmd undir stjórn Guðrúnar Ragnarsdóttur ráðgjafa hjá fyrirtækinu Strategíu. Þar erum við í góðum höndum en Guðrún vann með okkur á tíma starfsstjórnar árið 2020 að nýju skipulagi og þekkir vel til hjá okkur. Stefnumótunin er rökrétt skref í framhaldi af þeirri vinnu sem fór af stað eftir ábendingar úttektar sem Embætti landlæknis gerði hjá okkur árið 2019. Guðrún hefur áratuga reynslu af stefnumótun, innleiðingu stefnu og stjórnun breytinga hjá mörgum af þekktustu fyrirtækjum landsins, hjá hinu opinbera og ýmsum sveitarfélögum. Meðal annars má nefna
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, VIRK, Sjálfsbjargarheimilið, Lyfjastofnunar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Til baka