Föstudagsmolar forstjóra 21. apríl 2023
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Gleðilegt sumar!
Ég vil hefja þessa föstudagmola á að fá að óska ykkur öllum gleðilegs sumars og þakka kærlega fyrir samstarfið í vetur. Þegar leið fram á sumardaginn fyrsta fór hann sannarlega að standa undir nafni, að minnst kosti hér í Mosfellsbænum, þegar sólin tók að skína skært eftir hádegið. Það er sannarlega skemmtileg tilbreytni því í minningunni hefur sumardagurinn fyrsti oft verið tengdur kulda, roki og rigningu. Vonandi gefur þetta flott fyrirheit fyrir glimmrandi fínt sumar.
Það er því með mikilli bjartsýni sem ég hlakka til að takast á með ykkur við fjölda spennandi verkefna sem framundan eru.
Þakkir til stjórnar starfsmannafélagsins
Á dögunum hélt starfsmannafélagið okkar aðalfund. Öflugt og skemmtilegt starfsmannafélag er mikilvægt öllum fyrirtækjum og stofnunum enda eru þau öflugur hlekkur í að skapa góðan anda á vinnustöðum og auka starfsánægju. Það er því ánægjulegt að vel hefur tekist til með starfsmannafélagið okkar. Á aðalfundinum færði Reykjalundur stjórnarfólki smávægilegan þakklætisvott fyrir störf sín í starfsmannafélaginu og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. Ég vil nota þetta tækifæri og senda þakklætis- og hvatningarkveðjur til stjórnar starfsmannafélagsins okkar og hlakka til áframhaldandi samstarfs.
Á myndinni eru frá vinstri: Helgi Kristjónssón, framkvæmdastjóri rekstrar, Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari og stjórnarmaður, Elfa Dröfn Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur og stjórnarmaður, Hjalti Kristjánsson íþróttakennari og stjórnarmaður, Erna Bjargey Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur og formaður stjórnar og Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri. Dagný Þóra Baldursdóttir iðjuþjálfi var fjarverandi.
Afturelding & Reykalundur
Nú eru í sýningu á RÚV sjónvarpsþættirnir Afturelding en þættirnir eru íslensk þáttaröð eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Halldór Laxness Halldórsson (Dóra DNA). Um söguþráðinn segir RÚV að útbrunnin handboltastjarna frá níunda áratugnum taki við þjálfun kvennaliðs Aftureldingar í handbolta og á gömlum heimslóðum þurfi hann að horfast í augu við breytta tíma og takast á við ýmislegt í lífi sínu. Þættirnir eru að mestu teknir upp hér í Mosfellsbæ og að hluta til hér á Reykjalundi. Það er því áhugavert fyrir okkur sem þekkjum til að sjá Reykalund í þáttunum en meðal annars býr aðalpersónan í einu húsanna hér á Neðribraut við Reykjalund. Ég hef fengið mikil og jákvæð viðbrögð úti í samfélaginu vegna þessa og eru þættirnir skemmtileg auglýsing fyrir okkur.
Það er mikilvægt að Reykjalundur taki þátt í nærsamfélaginu og þess vegna sáum við okkur leik á borði þegar leitað var til okkar með að hluti þáttanna yrði tekin upp hér, ekki síst þar sem við gátum fengið smávægilega fjáröflun í leiðinni til tækjakaupa. Hins vegar var þetta mikilvægur lærdómur um hvernig ferli við verkefni sem þetta þarf að ganga fyrir sig ef við förum í slíkt samstarf aftur af einhverju tagi.
Allt gekk þetta þó vel í heildina og sjónvarpsþættirnir Afturelding eru hin besta skemmtun sem gaman er fyrir okkur hér á Reykjalundi að vera hluti af.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur