17.04.2023

Föstudagsmolar forstjóra 14. apríl 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Föstudagsmolarnir í þetta skipti eru heldur seint á ferðinni.
Vonandi áttuð þið öll góða helgi þessa síðustu helgi vetrarins því strax á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og því sumar framundan.
Gestahöfundur molanna í dag er Anný Lára Emilsdóttir, framkvæmdastjóri Hleinar

Njótið vikunnar!

Bestu kveðjur
Pétur


Skiptu þér af

Afskiptasemi er ekki talinn góður eiginleiki. Tengdamamman sem skiptir sér af barnauppeldinu, leiðinlegi nágranninn sem finnur að því hvernig þú leggur bílnum - þú vilt ekki vera sú týpa. Ég er afskiptasöm að eðlisfari en hef með auknum þroska lært að meta betur hvenær mínar ábendingar eiga við og hvenær ekki. Ég hef að mestu leyti náð að hemja mig í að skipta mér óumbeðin af léttvægum málum eða þegar einhver annar gerir hlutina öðruvísi en ég hefði gert þá.

Fyrir nokkrum vikum var ég í heita pottinum í Grafarvogslaug. Ég hafði lent í núningi í vinnunni fyrr um daginn og ég hugsaði með mér að nú ætlaði ég bara að hætta að vera svona eins og ég er, hér eftir ætlaði ég bara að fljóta með straumnum og vera ekki svona skoðanasterk og afskiptasöm. Ég tek reyndar af og til svona skyndiákvarðanir að ætla mér að gerbreyta karakter mínum eða útliti með engum langvarandi árangri en það er önnur saga sem ekki verður sögð hér. En þar sem þessi ákvörðun um Anný Láru útgáfu 2.0 hafði verið tekin í sturtunni var ég enn mjög staðföst þegar ég kom ofan í heita pottinn í Grafarvoginum. Í pottinum var auk mannsins míns, maður á þrítugsaldri og maður á sextugsaldri. Auk þess var kona á sextugsaldri og stuttu á eftir mér kemur maður hennar á harðahlaupum ofan í pottinn. Ég tek strax eftir því hvað hann er óöruggur í fasi og hvernig hann afsakar sig við konuna sína að hann hafi tafist því hann hafi langað að sjá aðeins handboltaæfingu sem var í gangi í íþróttahúsinu. Það var alveg ljóst að hann var hræddur við hana. Hún segir ekkert, virtist vera með það á hreinu að ísköld þögn með ákveðnu augnaráði er áhrifaríkari gjörningur en nokkur orð. Hún tekur strax eftir því að þvottamiðinn á sundskýlunni hans sést. „Þú ert í öfugri sundskýlu“ segir hún með dæmandi röddu, svo hátt að það fer ekki fram hjá neinum. „Farðu upp úr, þú ert FÁRÁNLEGUR“. Karlinn fer lúpulegur inn í búningsklefa og enginn segir neitt í pottinum. Á sama tíma og ég fékk sting í hjartað þá sauð á mér en nýja afskiptalausa Anný sagði ekkert og beið eftir að einhver annar í pottinum brygðist við. Þegar konan fór loksins upp úr pottinum gat ég ekki hamið mig lengur og sagði við pottverjana: „Hefðum við sagt eitthvað ef þetta hefði verið karlmaður sem kæmi svona illa fram við konuna sína? Hvað haldið þið að þessi maður megi þola heima hjá sér þegar ritskoðaða opinbera útgáfan er ekki betri en þetta?“ Það var fátt um svör. Ég var alla vega með óbragð í munni og ákvað með sjálfri mér að þetta myndi ég ekki gera aftur; sýna skeytingarleysi við ofbeldishegðun þegar ég hefði tækifæri til að bregðast við

Afskiptasemi þarf ekki endilega að vera slæmur eiginleiki. Það er borgaraleg- og siðferðisleg skylda okkar að bregðast við þegar aðrir eru í hættu eða eru órétti beittir. Það er miklu auðveldara að taka ekki slaginn og vonast til að einhver annar geri það. Fylgdu þínu innsæi og skiptu þér af þegar rauðu flöggin verða á vegi þínum.

Meðfylgjandi mynd er af skottlausu Bröndu minni en í kjölfar afskiptasemi sjálfboðaliða Kattholts hafa aðstæður Bröndu svo sannarlega breyst til batnaðar.

Anný Lára Emilsdóttir,
framkvæmdastjóri Hleinar.

Til baka