Föstudagsmolar forstjóra 17. mars 2023.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Árshátíðin framundan!
Eftir aðeins rétt rúma eina viku höldum við árshátíðina okkar. Miðasalan hófst í vikunni og fór vel af stað að sögn stuðboltanna í árshátíðarnefndinni. Að baki árshátíðar er mjög mikil vinna sem flestum er ekki sýnileg en þeir þekkja vel til sem einhvern tímann hafa tekið að sér skipulagningu viðburðar af þessu tagi. Um leið og ég hvet sem allra flesta til að mæta, njóta og gleðjast vil ég koma enn og aftur á framfæri kæru þakklæti til árhátíðarnefndarinnar fyrir sitt glæsta og fórnfúsa starf.
Sjáumst á árshátíðinni, Reykjalundur rokkar!
Mikilvægi sýnileika og þátttöku.
Eins og ég kom inn á í molunum í síðustu viku, er ég þessa dagana að funda með ýmsum starfsmannahópum. Myndin með molunum í dag er einmitt tekin í vikunni þegar ég fundaði með hjúkrunarfræðingunum okkar. Mæting á fundinn var mjög góð og því lá beint við að smella mynd af þessum glæsta hópi.
Annars vil ég nefna að þetta hafa verið mjög fínir fundir og mjög skemmtilegir, að minnsta kosti fyrir mig. Eitt af því sem upp hefur komið í umræðum er mikilvægi þess, að við starfsfólk, séum sýnileg utan Reykjalundar í málum sem tengjast endurhæfingu í samfélaginu. Við erum jú stærsta endurhæfingarstofnun landsins og hér er stór hópur reynslumikils fólks í endurhæfingu sem ekki er að finna annars staðar. Ég vil taka undir þetta. Hluti af okkar starfi er að taka þátt í samfélagslegri umræðu um málaflokkinn og vil ég því hvetja okkur öll til dáða. Þetta er líka markviss stefna framkvæmdastjórnar Reykjalundar, þó slík þátttaka kalli á töluverðan tíma frá daglegu meðferðarstarfi. Það þarf því að stíga varlega til jarðar og velja sporin vel.
Sem dæmi má nefna að í desember árið 2020 gaf heilbrigðisráðherra út aðgerðaáætlun um endurhæfingu til ársins 2025. https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Fimm%20%c3%a1ra%20a%c3%b0ger%c3%b0a%c3%a1%c3%a6tlun%20um%20endurh%c3%a6fingu%2009112020.pdf
Kynnt var að grundvöllur áætlunarinnar væri að endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð. Jafnframt átti að leggja ríka áherslu á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og stefna að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu í endurhæfingu.
Framkvæmdastjórn gaf sér góðan tíma til að fara yfir aðgerðirnar og sendi á heilbrigðisráðuneytið erindi þar sem áætluninni var fangað og að Reykjalundur væri tilbúinn að koma að ýmsum málum með sína sérþekkingu. Þó umrætt endurhæfingarráð hafi sannarlega verið stofnað – reyndar án þess að stærsta endurhæfingarstofnun landsins eigi þar fulltrúa, sem verða að teljast veruleg vonbrigði – er margt í áætluninni sem ennþá hefur ekki komið til framkvæmda. Sannarlega má segja að Covid sé gild afsökun fyrir því að ýmsum málum hafi seinkað en hana er ekki hægt að nota mikið lengur. Nú er kominn tími til að láta verkin tala. Þar erum við á Reykjalundi sannarlega tilbúin til að leggja okkar af mörkum. Meðal annars höfum við fyrir nokkru lagt inn beiðni fyrir viðræðum um notkun fjarheilbrigðisþjónustu við endurhæfingu og vonumst til að fara að fá jákvæð svör frá stjórnvöldum.
Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja ykkur öll til áframhaldandi virkni í ykkar fagstéttum og málefnasviðum, sem og almennt í samfélaginu, þar sem opinber umræða fer fram um endurhæfingarmál. Við höfum sannarlega mikið til málanna að leggja. Rödd okkar á Reykjalundi er mikilvæg í samfélaginu og við ættum að vera óhrædd við að auka þátttöku okkar á þessum vettvangi.
Það er svo vel við hæfi, og einnig er mér það ljúft og skylt, að enda molana í dag á því að senda heilbrigðisráðherra bestu afmæliskveðjur í tilefni dagsins en ég held að ég sé ekkert að brjóta neinar persónuverndarreglur með því að upplýsa að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra er sextugur í dag.
Góða og gleðilega helgi!
Pétur