Föstudagsmolar forstjóra 24. febrúar 2023
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Nú er einn mánuður í magnaða árshátíð Reykjalundar (sem er 25. mars ef einhver er ekki með það á hreinu). Það er því vel við hæfi að undirbúningur árshátíðarinnar hefjist formlega í dag þar sem Hulda Gunnarsdóttir félagsráðgjafi og formaður árshátíðarnefndar er gestahöfundur föstudagsmolana í dag. Pistill hennar nefnist Óður til gleðinnar og ég hvet ykkur til að lesa.
Myndin með molunum í dag er einmitt af Árshátíðarnefndinni okkar sem eru frá vinstri: Gunnhildur, Sóley, Hulda og Jórunn. Thelma Rún var því miður fjarverandi í myndatökunni.
Ég vil nota þetta tækifæri og senda bestu kveðjur til árshátíðarnefndarinnar. Þetta verður eitthvað!
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur
Pétur
Föstudagsmolar 24. febrúar 2023 - Óður til gleðinnar.
Ég er þakklát fyrir þann heiður að fá að skrifa til ykkar nokkur orð. Í pistlinum mun ég fjalla um nokkuð sem mér er afar hugleikið sem er líðan á vinnustað og mikilvægi þess að halda í gleðina í vinnu jafnt sem einkalífi.
Þegar ég hóf störf hér á Reykjalundi var vinnustaðnum skipt upp í sóttvarnarhólf. Ég og samstarfskona mín sem byrjaði um svipað leyti ákváðum að leita leiða til að brjóta upp þessa krefjandi daga með litlum gleðistundum sem féllu innan ramma sóttvarnartakmarkana. Það þurfti hugmyndaflug en var vel gerlegt með góðri þátttöku allra í hólfinu. Síðar var ég svo heppin að fá það verkefni í hendur að leiða saman þennan góða hóp ásamt fleirum í gerð myndbands fyrir árshátíð Reykjalundar árið 2022. Þrátt fyrir aukið álag sem því verkefni fylgdi situr helst eftir gleðin og orkan sem það gaf. Það er eitthvað við það að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn, njóta þess að fara svolítið út fyrir boxið og láta ótrúlegustu hugmyndir verða að veruleika. Að baki þessu verkefni lágu ótal margar hláturstundir og úr varð þéttur og góður hópur vinnufélaga. Við vitum að gleðin er mikilvægur hluti af lífinu. Að fást við ánægjulegar athafnir veitir lífsfyllingu og við nýtum þessa vitneskju í endurhæfingu á Reykjalundi.
Í meðferðarhandbók um hugræna atferlismeðferð er eitt af verkefnum hennar að skrá lista yfir ánægjulegar athafnir. Af hverju? Vegna þess að við vitum að þegar við erum döpur eða þunglynd þá er mikilvægt að skapa vettvang fyrir ánægjulegar upplifanir. Annað dæmi er gleðiseðill sem hefur verið innleiddur sem tilraunaverkefni hér á Reykjalundi. Þar sem megin inntakið eru þau skilaboð að við höfum leyfi til að njóta lífsins og gera eitthvað skemmtilegt þótt við séum í veikindaleyfi.
Á vinnumarkaði eru almennt stöðugar kröfur um aukin afköst og mörg okkar höfum selt matartíma og kaffitíma fyrir aðeins hærri laun og styttri viðveru á vinnustað. Vinnustytting hefur gefið okkur dýrmætan viðbótartíma með fjölskyldunni en á kostnað hvers? Getur verið að við séum óraunsæ í viðleitni okkar að ætla halda okkur að verki allan vinnudaginn án andrýmis? Ef við reynum sífellt að hlaupa hraðar til að mæta kröfum og flóknum aðstæðum án þess að hlúa að okkur mun það hafa áhrif á líðan okkar og lífsgæði. Þetta vissi þríeykið sem tókst á við fordæmalausa tíma. Í heimildarþáttunum Stormur má glöggt sjá hvernig húmor og góðlátleg stríðni var nýtt til að halda geðheilsunni við þessar krefjandi aðstæður auk þess sem þau voru ávallt til staðar fyrir hvort annað þrátt fyrir annríki.
Reykjalundur er töfrandi staður þar sem við í okkar starfi mætum erfiðum aðstæðum en upplifum jafnframt stórkostlega sigra. Töfrarnir liggja í mannauðnum sem starfar hér af hugsjón. Ef við pössum ekki upp á okkur töpum við töfrunum. Það þarf eins og í góðu hjónabandi að leggja rækt við að viðhalda góðum starfsanda, með nærandi gleðistundum.
Gefum okkur tíma til að leika okkur, líka í vinnunni. Taka þátt í góðlátlegu gríni með vinnufélögum, eiga skemmtilegar gleðistundir saman innan og utan vinnutíma. Splæsum í bros þegar við göngum hér um gangana. Gleði og bros eru smitandi og heilsubætandi. Smitum gleðinni út frá okkur. Setjum það í forgang að njóta lífsins. Önnur verkefni geta oft á tíðum beðið um stund.
Að þessu sögðu vonast ég eftir að sjá ykkur sem flest á árshátíð Reykjalundar 25. mars 2023!
Þá gefst einstakt tækifæri til að eiga gleðistund saman og skapa minningar sem við getum lifað á næstu vikur og mánuði.
Hulda Gunnarsdóttir,
Formaður Árshátíðarnefndar