Föstudagsmolar forstjóra 17. febrúar 2023.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Í gær héldum við upp á 78 ára afmæli Reykjalundar með gómasætir máltíð í hádeginu sem okkur starfsfólki, sjúklingum og gestum var boðið í. Nokkrar myndir munu birtast á næstunni en ég vil nú nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki eldhússins kærlega fyrir frábæra máltíð auk þess að þakka öllum afmælisgestum fyrir komuna og þátttökuna. Veðrið í gær skartaði sínu fegursta og Ágústa Fanney, einn af fjölmörgum velunnurum okkar hér á Reykjalundi tók þessar flottu myndir sem fylgja molunum í dag. Við þökkum henni kærlega fyrir en umhverfi okkar hér á Reykjalundi getur sannarlega verið glæsilegt á veturna líka.
Annars eru margir skemmtilegir dagar framundan hjá okkur eins og konudagurinn á sunnudaginn, bolludagur á mánudag, sprengidagur á þriðjudag og öskudagur á miðvikudag. Allir eru þessir dagar hluti af gömlum og góðum íslenskum hefðum sem gaman er að halda í.
Sérstaklega langar mig að minnst á öskudaginn á miðvikudaginn, 22. febrúar, en auk yngri kynslóðarinnar hefur færst mikið í vöxt að starfsfólk fyrirtækja og stofnanna klæði sig í skemmtilega búninga í tilefni dagsins. Við á Reykalundi höfum verið í þeim hópi síðustu ári og vil ég nota tækifærið hér og hvetja okkur öll til að skarta skemmtilegum búningum á öskudaginn.
Mars er gjaldfrjáls mánuður í mötuneytinu.
Mér er ánægja að segja frá því að nú í mars verður gjaldfrjálst fyrir okkur starfsfólk að borða í hádeginu í mötuneytinu okkar. Við höfum haft gjaldfrjálsan mánuð einstaka sinnum á undanförnum árum og hefur það mælist vel fyrir. Vonandi nýtist þetta ykkur vel.
Þáttaka í íbúafundi.
Í vikunni tók ég þátt fyrir hönd Reykjalundar í opnum íbúafundi með íbúum Mosfellsbæjar, hagsmunaaðilum og fulltrúum úr atvinnulífinu. Fundurinn fór fram í Hlégarði og var hluti af vinnu við stjórnsýslu- og rekstrarúttekt hjá Mosfellsbæ sem snýr að þáttum eins og mati á stafrænum lausnum í starfsemi Mosfellsbæjar, rekstri og ráðstöfun fjármuna og mati á stjórnkerfi og verkaskiptingu svo eitthvað sé nefnt. Þó Reykjalundur þjóni sannarlega fólki af öllu landinu og sé ekkert sérstaklega fyrir íbúa Mosfellsbæjar frekar en aðra landsmenn er mikilvægt að við séum hluti af nærsamfélaginu og látum okkur málefni varða sem tengjast staðsetningu okkar og nánast umhverfi. Því var mjög gaman að fá tækifæri til að taka þátt í fundinum en þar sat ég í vinnuhóp sem ræddi um atvinnumál, mikilvæg hagsmunamál fyrir fyrirtæki sem stafa í bænum og samskipti við stjórnsýsluna í bænum.
Um leið og ég óska okkur öllum góðrar helgar vil ég sérstaklega fá að óska konum okkar frábæra lands til hamingju með daginn á sunnudag.
Góða helgi!
Pétur
Til baka