09.02.2023

Glæsileg gjöf afhent Reykjalundi á aðalfundi Hollvinasamtakanna.

Laugardaginn 4. febrúar s.l. fór fram langþráður aðalfundur Hollvinasamtaka Reykjalundar en aðalfundur samtakanna hefur fallið niður síðustu ár vegna Covid-faraldursins. Hollvinasamtök Reykjalundar eru samtök fólks sem þykir vænt um Reykjalund og er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að efla starfsemina og styrkja frekari uppbyggingu hennar. Margir eiga þessari stofnun líf sitt að þakka, eða eiga vini og ættingja sem hafa komist aftur út í lífið sem virkir þátttakendur eftir dvöl á Reykjalundi.
Aðalfundurinn heppnaðist mjög vel og í stjórn samtakanna voru kjörin Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Haukur F. Leósson, Halla M. Hallgrímsdóttir, Júlíus Þór Jónsson og Örn Kjærnested en varamenn eru þær Eva Magnúsdóttir og Hafdís Gunnbjörnsdóttir.
Á fundinum afhentu Hollvinasamtökin Reykjalundi hjartarafrit og sex senda af fullkomnustu gerð, til að fylgjast með hjartalínuriti einstaklinga í þjálfun en gjöfin er að verðmæti tæplega 4 miljónir króna.
Reykjalundur þakkar félögum í hollvinasamtökunum kærlega fyrir hlýhug og glæsilegt framlag síðustu ár.
Á myndinni má sjá nokkra félaga í Hollvinasamtökunum og fulltrúa Reykjalundar við afhendingu gjafarinnar.

Til baka