09.12.2022

Föstudagsmolar forstjóra 9. desember 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan eru föstudagsmolarnir í dag en gestahöfundur er Bryndís Guðmundsdóttir, sem nýlega tók við starfi hjá okkur sem forstöðutalmeinafræðingur.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka stjórn starfsmannafélagsins og ykkur öllum fyrir skemmtilega jólastemningu síðasta miðvikudag.

Góða helgi og haldið áfram að njóta aðventunnar.

Bestu kveðjur
Pétur


Glöggt er gests augað

Það eru ekki margir mánuðir síðan ég hóf störf á Reykjalundi og starfsfólkið hefur tekið einstaklega vel á móti mér. Ég var beðin um að skrifa pistil dagsins og langar mig í honum til að fjalla aðeins um gildi teymisvinnu og störf talmeinafræðinga.

Teymisvinna
Teymisvinna er stór þáttur í starfsemi Reykjalundar. Gagnreyndar aðferðir eru nýttar í allri meðferðarvinnu og þess kappkostað að skjólstæðingar fái sem mest út úr endurhæfingunni. Samvinnuandinn er aðdáunarverður og þétt teymi myndast þar sem frjó teymishugsun nýtist vel í að finna leiðir til að aðstoða fólk við að finna sinn takt í lífinu.

Slík vinna er mjög lærdómsrík og hver og einn starfsmaður og skjólstæðingarnir kenna manni eitthvað nýtt í hverri viku, hvort sem það eru nýjar aðferðir eða ný sýn og ótal margt annað. Ég trúi því að þetta geri hvern mann aðeins betri.

Hvað gera talmeinafræðingar?
Þetta er spurning sem ég hef svarað æði oft í gegnum tíðina. Vinnum við með framburð málhljóða eða við að gefa fólki brauð, banana og vatn og horfum á það borða! Hvort tveggja er hluti af starfi talmeinafræðinga en við vinnum einnig með svo margt annað eins og samstarfsfélagar mínir þekkja.

Talmeinafræðingar hafa um langt skeið tekið þátt í teymum á Reykjalundi og því er viðamikil þekking til staðar á okkar starfi og þjónustu hér. Ég hef því ekki fengið að svara ofangreindri spurningu um hvað talmeinafræðingar geri eiginlega en er alltaf til í að spjalla við samstarfsfélaga um starfið. Því meiri þekking sem er á störfum talmeinafræðinga því betur nýtast þeir í teymunum þar sem við erum eitt hjól af mörgum.

Vinna með fólki með tjáskiptaörðugleika er mér sérstaklega hugfólgin. Fólk með málstol kemur í þjálfun og hefur samskipti við flesta starfsmenn teymis. Leitast er við að styrkja og bæta samskipti þeirra. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess fyrir miðlun þekkingar um samskipti við fólk með málstol til allra starfstétta.

Ég fékk tækifæri til þess nýlega að sitja námskeiðið Kom til ásamt nokkrum talmeinafræðingum sem sinna fólki með málstol hér á landi. Þar fáum við tæki til að leiðbeina samstarfsfélögum um það hvernig best er að eiga samskipti við fólk með málstol og fengum leyfi til að þýða og aðlaga leiðbeiningarefnið að okkar starfstöðvum þannig að það nýtist sem best. Ég hlakka til að sýna starfsfólki Reykjalundar afraksturinn á næsta ári og von mín er að Kom til muni nýtast Reykjalundi vel.

Nú á aðventunni leitast starfsmenn við að eiga skemmtilegar stundir saman í aðdraganda jóla þar sem Reykjalundur hefur verið settur í jólabúning. Meðfylgjandi mynd er tekin af talmeinafræðingum, næringarfræðingum og félagsráðgjöfum sem héldu fullveldisdaginn 1. desember hátíðlegan með því að klæðast jólapeysum.

Ég hlakka til að eiga fleiri góðar stundir hér á Reykjalundi.

Bryndís Guðmundsdóttir,
forstöðutalmeinafræðingur

Til baka