06.12.2022

Sjónvarpsþættir teknir upp á Reykjalundi - Afturelding

Nokkuð reglulega er leitað til okkar hér á Reykjalundi varðandi að fá aðgang að húsnæði fyrir tökur á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ef mögulegt er, reynum við að taka jákvætt í slíkar beiðnir enda er það oftast bara skemmtilegt krydd í daglegt líf hér á Reykjalundi. Eðlilega getum við þó ekki alltaf gefið jákvætt svar.
Gaman er að segja frá því að undanfarið hefur stór hópur verið hér hjá okkur við að taka upp sjónvarpsþætti sem bera nafnið Afturelding. Um er að ræða leikna sjónvarpsþætti um gamlan handboltakappa sem hefur verið í óreglu en fær svo það hlutverk að þjálfa kvennalið Aftureldingar og lendir við það í ýmsum ævintýrum - án þess að við gefum upp of mikið um söguþráðinn. Þættirnir, sem verða alls 8 talsins, eru hugarfóstur Halldórs Laxness Halldórssonar (Dóra DNA) og Hafsteins Gunnars Sigurðssonar. Með aðalhlutverk fara Ingvar E. Sigurðsson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Saga Garðarsdóttir og fleiri þjóðþekktir leikarar. Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, Elsa María Jakobsdóttir og Gagga Jónsdóttir leikstýra. Handritshöfundar eru Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, Halldór Laxness Halldórsson, Jörundur Ragnarsson, Katrín Björgvinsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malmquist framleiða en fyrirhugað er að þættirnir verði sýndir á Ríkissjónvarpinu á næsta ári.
Við hér á Reykjalundi óskum sjónvarpsþáttafólkinu góðs gengis og bíðum spennt eftir þáttunum en meðfylgjandi myndir voru teknar í morgun þegar tökur stóðu yfir.

Til baka