27.10.2022

Aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Nú á þriðjudaginn fór fram aðalfundur Reykjalundar endurhæfingar ehf. Reykjalundur endurhæfing ehf. varð til sumarið 2020 þegar stjórn SÍBS samþykkti aðskilnað Reykjalundar og SÍBS og hlutahafafundur samþykkti stofnun einkahlutfélags í eigu SÍBS.
Í samþykktum einkahlutafélagsins segir meðal annars: Tilgangur RLE er: Að reka heilbrigðisstofnun sem hefur það hlutverk að veita alhliða endurhæfingarþjónustu á sviði heilbrigðis-, félags,-forvarnar og fræðslumála til að bæta virkni, færni og þátttöku einstaklinga í daglegu lífi, að taka virkan þátt í kennslu fagfólks um endurhæfingu, að stunda rannsóknir og fræðslu um endurhæfingu og að sjá um rekstur fasteigna fyrir heilbrigðisþjónustuna.
Starfsárið 2021 var fyrsta starfsár hins nýja félags og vegna flókinna útfærslu á yfirfærslu og ýmsum bókhaldsmálum hefur tekið verulegan tíma að klára fyrsta ársreikning hins nýja félags.
Þessi fyrst aðalfundur var því með lágstefndum hætti en tilkynnt var að aðalfundir félagsins verði framvegis haldnir að vori og þá með formlegri hætti þar sem gestum verði boðið.
Helst bar til tíðinda á fundinum að taprekstur ársins var um 70 milljónir sem er þó töluvert betri rekstrarniðurstaða en gamla félagsins árið áður. Haraldur Sverrisson, fyrrverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar gekk úr stjórn en Regína Ásvaldsdóttir, sem nýlega settist í stól bæjarstjóra í Mosfellsbæ, tók sæti hans. Í stjórn eiga sæti Anna Stefánsdóttir formaður, Gunnar Ármannsson, Regína Ásvaldsdóttir og Arna Harðardóttir, varamaður.
Reykjalundur þakkar Haraldi fyrir sín störf í þágu stjórnar og býður Regínu velkomna.
Meðfylgjandi mynd var tekin á fundinum en hún sýnir Önnu Stefánsdóttur, flytja skýrslu stjórnar.

Til baka