14.10.2022

Föstudagsmolar forstjóra 14. október 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Fyrst af öllu langar mig að koma á framfæri kærum þökkum til stjórnar starfsmannafélagsins okkar en í gær stóðu þau fyrir velheppnuðu skemmtikvöldi þar sem rúmlega 60 starfsmenn skelltu sér saman í pílukast og samveru á þar til gerðum stað við Snorrabrautina. Þetta tókst allt ljómandi vel og var stórskemmtilegt, þó ég skrifi vísvitandi ekki mikið um hæfileika mína í pílukasti.
Í dag er svo Bleiki dagurinn og gaman er að sjá hversu margir eru klæddir í bleikt í tilefni dagsins. Bleikur október er átak á vegum Krabbameinsfélagsins þar sem félagið hvetur landsmenn til að bera bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Eldhúsið okkar hefur svo galdrað fram bleikar veitingar í dag og er sjálfsagt að senda þangað bestu þakkir.
Hér að neðan eru föstudagsmolar dagsins, þar sem gestahöfundur er Lárus S. Marinusson, forstöðuheilsuþjálfari.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur
Pétur


Það skiptir máli fyrir okkur manneskjurnar að vita hvaðan við komum og hverjar rætur okkar eru. Ekki síður er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvert við viljum stefna, að við séum með ákveðin gildi og lífssýn sem markar okkur leið. Hið sama má segja um samfélög og stofnanir þjóðfélagsins. Sífellt er gagnlegt að spyrja hvað við sem samfélag viljum standa fyrir, hvert við óskum að stefna og á hvaða grunni við viljum byggja.

Reykjalundur var á sínum tíma stofnaður af miklu hugsjónafólki sem vildi leggja gott af mörkum til samfélagsins. Markmiðin voru skýr. Um var að ræða baráttu við þann lífsógnandi sjúkdóm sem berklar voru. Litið var á Reykjalund sem eign þjóðarinnar. Í tímans rás hefur starfsemin breyst og um áratuga skeið hefur Reykjalundur þróast út í það að verða stærsta endurhæfingarmiðstöð landsins. Markmið endurhæfingarþjónustunnar hafa einnig verið skýr og einkunnarorð SÍBS, styrkjum sjúka til sjálfsbjargar, endurspegla þau vel. Á Reykjalundi starfar hópur fagfólks, þar sem hver stétt er með sína kunnáttu og þekkingu og leggur sitt af mörkum til endurhæfingar þeirra sem á þurfa að halda

Á þessu ári var þess minnst að 40 ár voru liðin frá stofnun hjartaendurhæfingar á Reykjalundi. Í tilefni af því var m.a. farið yfir þróun þeirrar endurhæfingar og hvernig áherslur hafa verið í gegnum tíðina. Vert er að minna á þátt heilsuþjálfunar í þeirri endurhæfingu þar sem heilsuþjálfarar eru ein þeirra fagstétta sem tekið hafa þátt í uppbyggingu og þróun þess starfs frá upphafi. Eitt af grunnmarkmiðum heilsuþjálfunar er að styðja fólk og hjálpa því að finna hreyfiform sem hentar. Þar má nefna hreyfiþjálfun ýmiss konar svo sem göngu, leikfimi, sund og almennar íþróttir. Fjallgöngur hafa verið í umsjón heilsuþjálfara og hafa mörg sem tekið hafa þátt í þeim sagt frá ánægju sinni yfir því að hafa sigrað fjallið og jafnvel tekið sér í munn orð Tómasar Guðmundssonar, borgarskálds: ,,Sjáið tindinn, þarna fór ég“ eins og segir í ljóði hans Fjallgöngu.

Endurhæfingin hefur þróast og breyst. Í öllum breytingum er mikilvægt að skoða sögu og samhengi og gera sér grein fyrir ákveðnum grunngildum og hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. Starfsendurhæfing sem nú hefur verið lögð niður hét á árum áður atvinnuleg endurhæfing. Hennar markmið var að styðja fólk til iðju og að það gæti lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Það er miður að þessi endurhæfingarþjónusta skuli ekki hafa fengið þann hljómgrunn sem henni ber innan okkar sameiginlega heilbrigðiskerfis.

Að lokum er vert að geta þess að í dag 14. október er bleiki dagurinn. Hann er haldinn til að sýna öllum konum sem greinst hafa með krabbamein stuðning og samstöðu. Á þessum degi erum við hvött til þess að lýsa skammdegið bleikum ljóma. Ég hvet okkur öll til að styrkja bleika daginn í orði og verki.

Lárus S. Marinusson
Forstöðuheilsuþjálfari

Til baka