30.09.2022

Kveðjuhóf starfsendurhæfingarteymis Reykjalundar.

Í dag bauð starfsfólk starfsendurhæfingarteymis Reykjalundar til kveðjuhófs en á morgun, 30. september, lýkur formlegri starfsemi teymisins. Eins og fram hefur komið er að ljúka sex mánaða uppsagnarfresti þó nokkrir þjónustuþegar okkar munu fá að klára sína meðferð fram að áramótum. Fram hefur komið að breytingin er ekki í þökk starfsfólks, framkvæmdastjórnar eða stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf., þar sem hún virðist helst byggjast helst á skilgreiningum á orðalagi en samkvæmt skýringum sem hafa borist úr ráðuneytinu er ástæðan sú að “starfsendurhæfing” falli ekki undir heilbrigðisráðuneyti og því greiði ráðuneytið og Sjúkratryggingar ekki slíka þjónustu lengur.
Vonir standa nú til að starfsemin fari í gang aftur en ljóst er það verður í breyttri mynd ef af verður.
Fjölmenni var í kveðjuhófinu í dag en margir fyrrverandi starfsmenn kíktu við auk ýmsra góðra gesta og starfsfólks Reykjalundar. Heidi Andersen formaður Starfsendurhæfingarteymisins stýrði dagsská þar sem fluttu ávörp Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, Magnús Ólason fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, Hans Jakob Beck yfirlæknir starfsendurhæfingarteymis og Bergþór H. Þórðarson, varaformaður Öryrkjabandalagsins. Án efa voru þó hápunkturinn þegar Markús Máni Gröndal og Þorbjörg Edda Björnsdóttir fluttu glæsileg ávörp þar sem þau sögðu sögu sína en þau hafa bæði farið í gegnum farsæla meðferð starfsendurhæfingarteymis og hafa í framhaldinu verið ráðinn í vinnu á Reykjalundi. Þau eru því skýr dæmi um mikilvægi þjónustunnar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir hugrekkið og áhrifamiklar en ánægjulegar sögur sínar.
Reykjalundur þakkar öllum þeim sem kíktu við í kveðjuhófinu og við vonum sannarlega að úr rætist með þjónustu við þennan mikilvæga hóp hér á Reykjalundi.

Til baka