12.08.2022

Föstudagsmolar forstjóra 12. ágúst 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Velkomin aftur!
Nú er starfsemin okkar komin á fullt skrið að loknu sumarhléi. Vonandi hafið þið sem allra flest náð að hafa það gott, hlaða batteríin og njóta aðeins lífsins. Þó það sé alltaf mjög gaman að komast í langþráð frí, er líka gaman að koma aftur til baka í daglega lífið, hitta samstarfsfólkið aftur og sjá Reykjalundinn komast aftur í hefðbundið horf. Ekki síst er það forvitnilegt fyrir mig, því þó þetta sé þriðja sumarið mitt í starfi hér á Reykjalundi, er þetta fyrsta sumarið þar sem Covid er ekki verulega að trufla starfsemina.
Þetta árið var ákveðið að fara í tilraunaverkefni og bjóða upp á fjögurra vikna samfellt sumarhlé í starfsemi Reykjalundar. Framkvæmdastjórn mun á næstunni safna upplýsingum og álitum frá ykkur um hvernig þessi tilraun tókst og hvort þetta fyrirkomulag eigi að vera áfram eða fyrra fyrirkomulag um þriggja vikna sumarhlé verði tekið upp aftur eða jafnvel eitthvað annað. Hver sem niðurstaðan verður, verður hún kynnt strax í september svo allir geti gert ráðstafanir tímanlega varðandi næsta sumar.

Heimsókn á Múlalund
Í morgun heimsótti ég nágranna okkar hér á Reykjalundarlóðinni, Múlalund. Múlalundur er systurfyrirtæki Reykjalundar sem rekið er hér í húsinu af SÍBS í því skyni að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku. Á Múlalundi starfar fjölbreyttur hópur fólks með og án örorku og eftirspurn eftir störfum þar er mikil. Kaup á vörum og þjónustu af Múlalundi hefur bein áhrif á framboð starfa en það er ótrúlega gaman að kynna sér starfsemina og sjá hversu fjölbreyttum verkefnum Múlalundur er að sinna. Starfsmenn nú eru alls um 45 en margir eru í hlutastörfum.
Tekjur Múlalundar koma að mestu af sölu á vörum og þjónustu og er það nær einsdæmi í starfsemi sem þessari. Múlalundur selur bæði eigin framleiðslu og vörur frá innlendum og erlendum birgjum, auk þess að taka að sér fjölbreytt verkefni sem oft eru mannfrek. Í verslun Múlalundar er ýmislegt forvitnilegt að sjá og er um að gera að hvetja okkur öll til að nýta Múlalund eins og hægt er. Mynd dagsins var einmitt tekin á kaffistofu Múlalundar í morgun þar sem ég fékk að gæða mér á kökusneið ásamt starfsfólkinu. Kærar þakkir fyrir mig.

Vonandi náum við sumargrilli
Líkt og síðustu ár er ætlunin að reyna að hafa sumargrill fyrir sjúklinga og starfsfólk eitthvert góðvirðishádegið nú í ágúst. Það verður nú að segjast eins og er að tækifærin hafa ekki verið mörg það sem af er mánuðinum en vonandi fáum við sólríkt hádegi í næstu eða þarnæstu viku þar sem við getum fagnað saman og gætt okkur á einhverju góðgæti frá Gunnari og félögum í eldhúsinu.
Ég veit þið verðið öll tilbúin þegar kallið kemur og njótið vel.

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka