Föstudagsmolar forstjóra 24. júní 2022
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Covid minnir á sig
Eins og fram kom í tölvupósti frá Stefáni framkvæmdastjóra lækninga til okkar starfsfólks í morgun, erum við því miður ekki laus við Covid-veiruna. Hún hefur aðeins verið að láta á sér kræla í hópi okkar starfsfólks og eins sjúklinga okkar, þó ég viti ekki til að neinn hafi veikst alvarlega sem betur fer. Ég vil því enn og aftur nota tækifærið og minna okkur á almennar sóttvarnir og virðingu við þær. Landspítali og fleiri heilbrigðisstofnanir hafa þegar hert reglur um sóttvarnir og höfum við einnig gert það varðandi Miðgarð. Ekki hefur verið talið þörf á frekari sóttvarnarráðstöfunum hjá okkur í almennri starfsemi og vonum við að svo verði ekki.
Öryggismál í endurskoðun
Ákveðið hefur verið að fara í úttekt á öryggismálum hér á Reykjalundi. Ýmis tilefni í samfélaginu undanfarið minna okkur á að daglegt líf okkar hér á landi er breytt og við lifum í nýjum raunverleika. Það er því mikilvægt að við hér á Reykjalundi eins og aðrir séu meðvituð um stöðu mála og aðlögum okkur að samfélaginu eins og það er á hverjum tíma. Það er lykilatriði að við starfsfólk upplifum ekki öryggisleysi í vinnunni og því mikilvægt að þessi mál séu endurskoðuð í samræmi við það. Gott er að hafa í huga að breytingar á öryggismálum krefjast skipulags og aukins aga í daglegu starfi okkar, en verði talin þörf á breytingum verða þær kynntar með markvissum hætti þegar þær liggja fyrir.
Jónsmessan er í dag
Síðast en ekki síst langar mig að birta hér fróðleik um Jónsmessu en í nótt var Jónsmessunótt og í dag er Jónsmessa. Ég heyri að misjafnt er hversu mikið fólk þekkir til þessar hátíðar og sögu hennar þannig að ykkur til gamans kemur hér texti um Jónsmessuna sem Unnar Árnason bókmenntafræðingur skrifaði fyrir Vísindavef Háskóla Íslands árið 2003:
„Jónsmessan er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara enda eru Jón og Jóhannes tvö afbrigði sama nafns í íslensku. Í gömlum ritum er Jóhannes skírari oft nefndur Jón eða Jóan skírari eða baptisti. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar. Samkvæmt Nýja testamentinu fæddist Jóhannes um það bil sex mánuðum á undan Jesú.
Að Jesús sé fæddur í svartasta skammdeginu þegar sólarganginn tekur að lengja, er auðvitað þrungið merkingu og táknar þá von sem Jesús færir mannkyninu samkvæmt kristinni guðfræði. Því passaði það fullkomlega að fæðing Jóhannesar skyldi tímasett þegar sólargangur væri sem lengstur.
Þegar júlíanska tímatalinu var komið á í Rómaveldi á 1. öld f.Kr., héldu Rómverjar upp á 24. júní sem lengsta dag ársins. Það tímatal lá til grundvallar ákvörðun Rómarkirkjunnar nokkrum öldum síðar að messudag Jóhannesar skírara bæri upp á þann dag. Menn gerðu sér þá ekki grein fyrir því að sumarsólhvörf höfðu færst fram um þrjá daga miðað við stjarnfræðilegar sólstöður. Jónsmessu ber því ekki upp á lengsta dag ársins fremur en jólin á stysta dag ársins.
Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu. Í Evrópu er hún miðsumarshátíð, samanber leikrit Shakespeares, A Midsummer Night’s Dream sem á íslensku nefnist Draumur á Jónsmessunótt. Þar tíðkuðust svallveislur miklar, brennur og dansleikir sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum.
Skiljanlega leist mörgum kirkjumanninum illa á slíka hegðun á helgum degi. Marteinn Lúter sveiflaðist til dæmis milli þeirrar skoðunar að gleði alþýðunnar ætti rétt á sér og að hegðun hennar líktist mest hjáguðadýrkun. Þrátt fyrir viðleitni kirkjunnar manna er enn haldið upp á Jónsmessu með brennum, dansi og drykkju, en hátíðarhaldið hefur vissulega orðið hóflegra í löndum Evrópu eftir því sem aldirnar liðu.
Náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafa komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess á Íslandi og annars staðar. Jónsmessan er ekki um miðsumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sumarið er ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Á þjóðveldisöld hófst Alþingi dagana kringum 24. júní og því ekki tími fyrir almenn hátíðahöld kringum landið. Síðar seinkaði setningu Alþingis, líklega vegna kólnandi veðurfars sem tafði fyrir öllum vorverkum og kom enn frekar í veg fyrir að menn gætu gert sér glaðan dag á Jónsmessu. Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi.
Bjartar nætur hafa líka átt sinn þátt í því að máttur góðra sem illra vætta hefur þótt í lágmarki kringum Jónsmessu og því lítil ástæða til að þóknast þeim með dýrkun hvers konar sem einkenndist af svalli í Evrópu. Jónsmessunótt þykir þó enn með mögnuðustu nóttum ársins en þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga – sú venja gæti átt sér vísindalega stoð því efnasamsetning jurta er auðvitað breytileg eftir árstíma.
Nú á dögum ættu aðstæður að vera hátíðahöldum á Jónsmessu meira í vil en fyrr á tímum. Hlýrra veðurfar gerir það að verkum að vorverkum bænda er gjarnan lokið fyrir Jónsmessu og heyskapartíð ekki enn hafin. Það sem helst hefur staðið gleðskap á Jónsmessu fyrir þrifum er hve nálæg hún er þjóðhátíðardeginum 17. júní. En á móti kemur að sífellt fleiri kynnast Jónsmessuhátíðum erlendis, og betri efnahagur og styttri vinnutími eykur eftirspurn eftir skemmtunum þannig að krafan um gleðskap á Jónsmessu kann að styrkjast á næstu árum og áratugum.“
Eins og ég hef áður kynnt, hef ég síðustu vikur verið á mismunandi stöðum í húsinu með starfsstöð mína og er tilgangurinn að fá að kynnast starfseminni og ykkur með öðrum hætti en venjulega. Í dag er ég til dæmis með aðsetur í móttökunni en þar er unnið mikið og merkilegt starf sem áhugavert er að kynnast. Það er því vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé að af okkur Guðrúnu móttökuritara.
Gleðilega Jónsmessu og góða helgi!