Síðasti ungbarnasundstími Óla Gísla eftir 22 ára starf
Síðasta föstudag var merkisstund hér á Reykjalundi þegar íþróttakennarinn og ungbarnasundþjálfarinn Óli Gísla stýrði sínum síðasta tíma í ungbarnasundi, amk hér í Reykjalundarlauginni.
Óli Gísla hefur boðið upp á tíma í ungbarnasundi í sundlaug Reykjalundar allt frá árinu 2001. Sundkennsla hans hefur notið gríðarlegra vinsælda og hafa flest árin verið bæði í boði byrjendanámskeið og framhaldsnámskeið í ungbarnasundinu.
Óli hefur nú ákveðið að draga sig í hlé á þessum vettvangi og hefur afhent Fabio La Marca keflið en Fabio mun taka við ungbarnasundtímum í Reykjalundarlauginni næsta haust.
Það var fjöldi manns viðstaddur þennan síðasta kennslutíma Óla Gísla. Söngkonan Hafdís Huld stýrði söngnum í tímanum ásamt gítarleikara en allir tímarnir ganga mikið út á söng og leiki með börnunum. Sérstakur gestur var Snorri Magnússon en hann er nánast guðfaðir ungbarnasundkennslu hér á landi.
Okkur hér á Reykjalundi fannst vel við hæfi að færa Óla smávægilega kveðju frá Reykjalundi á þessum tímamótum og en það var Myndagleði Heklu og Röggu sem smelltu af fjölda mynda við þetta tækifæri, meðal annars þessari sem fylgir fréttinni.
Á myndinni eru frá vinstri: Helgi Kristjónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Reykjalundar, Óskar Jón Helgason, framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar á Reykjalundi, Pétur Magnússon forstjóri Reykjalundar, Óli Gísla sjálfur, Fabio La Marca og Snorri Magnússon.
Við hér á Reykjalundi þökkum Óla kærlega fyrir samfylgdina og samstarfið á öllum þessum árum og óskum honum allra heilla í nýjum verkefnum.