25.05.2022

Fundað með félagsmálaráðherra um málefni starfsendurhæfingar

Í morgun áttu fulltrúar Reykjalundar fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra. Tilgangurinn var að ræða málefni starfsendurhæfingar á Reykjalundi en umræða hefur verið undanfarið um að starfsendurhæfing Reykjalundar sé ekki heilbrigðisþjónusta að mati stjórnvalda og eigi því ekki heima í heilbrigðisráðneyti heldur í félagsmálaráðuneyti. Þar með eigi Sjúkratryggingar Íslands ekki að semja við Reykjalund við þessa þjónustu heldur félagsmálaráðuneytið eða undirstofnanir þess.
Þessi umræða hefur komið okkur hér á Reykjalund á óvart. Teljum við þetta byggt á misskilningi þar sem starfsendurhæfingarteymi Reykjalundar sé ekki að sinna „atvinnulegri starfsendurhæfingu“ í skilningi laganna sem tengjast VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Sú þjónusta sé gerólík okkar þjónustu þó sama orðið, starfsendurhæfing, sé notað.
Við teljum umræðuna tilefni til þess að skýra betur og skilgreina hlutverk þátttakenda í starfsendurhæfingu í heilbrigðis- og félagskerfinu. Þá leggjum við á Reykjalundi áherslu á að starfsendurhæfing sé ekki afmarkað fyrirbæri og að það sé mikilvægt að eiga samtal milli heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Reykjalundar til að skýra þennan mun og nauðsyn þess að Reykjalundur sinna þessari endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu.
Vel fór á með ráðherra og fulltrúum Reykjalundar og vonumst við til að finna farsælar lausnir.

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon
Forstjóri/CEO

Til baka