Föstudagsmolar forstjóra - 18. mars 2022
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Framkvæmdastjórn fundar með meðferðarteymum
Undanfarnar tvær vikur höfum við í framkvæmdastjórn fundað með meðferðarteymum hér á Reykjalundi. Meginfundarefnið hefur verið umræða um fjölda sjúklinga og meðferðardaga á þessu ári en einnig hafa ýmis mál tengd starfinu verið rædd. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir virkt og þverfaglegt meðferðarstarf í endurhæfingu, eins og fram fer hér á Reykjalundi, að virkt samtal og samráð sé í gangi milli meðferðarteyma og stjórnenda. Því miður hefur verið mjög erfitt að uppfylla það síðustu tvö árin í Covid-hremmingunum. Sem betur fer horfir það allt til betri vegar.
Þar sem Covid hefur verið í gangi allan tímann þau tæpu tvö ár sem ég hef starfað hér á Reykjalundi eru fundir sem þessir mjög kærkomið tækifæri til að fá dýpri innsýn í daglegt meðferðarstarf og kynnast málum betur. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ykkur öllum kærlega fyrir að gefa ykkur tíma til að hitta okkur. Metum það mikils og hlökkum til aukins samstarfs með svona beinum hætti.
Myndin með molunum í dag er einmitt tekin í vikunni á einum þessara funda en það voru snillingarnir í verkjateyminu sem stilltu sér upp í myndatöku að þessu sinni.
Trúnaðarmenn hittast
Í síðustu viku hitti ég ásamt Guðbjörgu mannauðsstjóra, trúnaðarmenn stéttarfélaga hér á Reykalundi. Tilgangurinn var að fara yfir það sem er efst á baugi í starfseminni og heyra hljóðið í fólki.
Það er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki og stofnanir að vera með skilvirkt trúnaðarmannakerfi. Ekki bara út frá sjónarhorni starfsfólks heldur er það ekki síður mikilvægt fyrir stjórnendahóp viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Við Guðbjörg höfum því fundað með trúnaðarmönnunum okkar einu sinni til tvisvar á ári og hefur það fyrirkomulag gefist vel.
Sumarhátíð Reykjalundar í maí
Í fyrrasumar, nánar tiltekið þann 16. júní, hélt Reykjalundur skemmtilega sumarhátíð fyrir starfsfólk og sjúklinga. Hátíðin var í hádeginu og hófst á því að öllum var boðið upp á ljúffengan hádegisverð með ljómandi fínum eftirrétti. Strax eftir matinn var svo boðið upp á skemmtiatiði í íþróttasalnum þar sem enginn annar en Ari Eldjárn steig á stokk og skemmti okkur. Jafnframt heiðruðum við starfsmenn sem látið höfðu af störfum mitt í öllu Covid fárinu og ekki hafði verið unnt að heiðra fyrr. Framkvæmdastjórn hefur nú ákveðið að blása aftur til sumarhátíðar með svipuðum hætti og í fyrra, enda þótti þetta fyrirkomulag takast vel.
Hátíðin verður að öllum líkindum í maí þetta árið en nákvæm dagsetning og dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.
Að lokum vil ég óska félagsráðgjöfum til hamingju með Alþjóðadag félagsráðgjafar sem var 15. mars.
Góða og gleðilega helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur