15.03.2022

Alþjóðadagur félagsráðgjafar 15. mars 2022

Byggjum saman nýtt vistvænt – félagslegt samfélag: Skiljum engan eftir 

Í dag er Alþjóðadagur félagsráðgjafar og kynnt er ný framtíðarsýn og aðgerðaáætlun til að skapa ný alþjóðleg gildi, stefnur og venjur sem byggja upp traust, öryggi og sjálfseflingu fyrir allt fólk og sjálfbærni jarðar. 

Orð eru til alls fyrst og síðan fylgja í kjölfarið mörg skref bæði stór og smá. Við viljum geta treyst hvort öðru og á hvort annað hvort sem það á við samskipti einstaklinga eða þjóða. Við viljum líka vera örugg í öllum skilningi orðsins og gildir einu hvort við erum að tala um öryggi í okkar heimalandi, heimsálfu eða innan fjölskyldu, á heimilum eða í vinnu og skólum. 

Oft erum við félagsráðgjafar að vinna með grunnþarfir okkar skjólstæðinga eins og framfærslu og húsnæðismál og ljóst að töluverður fjöldi skjólstæðinga Reykjalundar býr ekki við öryggi hvað þessa grunnþætti varðar. Einnig þekkjum við það flest úr endurhæfingarstarfinu að tíma tekur oft að byggja upp traust einstaklingsins á sjálfum sér og þeim möguleikum sem endurhæfingin getur falið í sér. Sem betur fer upplifum við líka oft þær jákvæðu breytingar sem eiga sér stað á endurhæfingartímabilinu þegar traust, öryggi og trú á eigin getu ræður ferðinni. 

Skiljum engan eftir, hvorki þá sem standa höllum fæti í okkar samfélagi né alla þá sem hafa valið sér þann starfsvettvang að styðja og efla annað fólk. Heilbrigðisstarfsfólk og allir sem starfa í velferðarþjónustu þurfa að búa við traust og öryggi á sínum vinnustað. Í auknum mæli beinast sjónir að félagslegri vinnuvernd starfsmanna og var sem dæmi þingsályktunartillaga flutt í byrjun ársins um að rannsaka þurfi betur líðan þeirra sem vinna við það að hjálpa öðrum og setja fram tillögur að úrræðum til að sporna við streitu, kulnun, samkenndarþreytu og annars stigs áföllum.  

Við, starfsmenn Reykjalundar, þekkjum þó nokkuð til þessa málaflokks og skjólstæðingar sem glíma við þessa neikvæðu þætti sótt endurhæfingu á ýmsum sviðum hjá okkur. Hugsanlega getum við unnið enn markvissar og veitt þverfaglega endurhæfingu bæði hvað varðar aðkomu faghópa en eins þvert á meðferðarsvið. 

Handleiðsla er gangreynd aðferð sem forvörn gegn starfstengdri streitu, kulnun, samkenndarþreytu og annars stigs áföllum og hefur í þó nokkurn tíma verið hluti af mannauðsstefnu Reykjalundar. Bókin Handleiðsla – Til eflingar í starfi var gefin Reykjalundi þegar hún kom út árið 2020 og geta áhugasamir fengið bókina lánaða með því að senda Söndru Ösp Guðmundsdóttur tölvupóst. Í yfirferð og endurskoðun ýmissa gæðskjala hefur meðal annars verið hugað að nánari útfærslu handleiðsustefnu Reykjalundar og styttist í að hægt verði að lesa sér betur til um handleiðslu í rafrænu gæðahandbókinni okkar. 

Góðan og gleðilegan Alþjóðadag félagsaráðgjafar 

Sveindís, Harpa, Nadía, Hulda og Elínbjörg, félagsráðgjafar Reykjaundar

Til baka