07.03.2022

Föstudagsmolar forstjóra - 4. mars 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Kóvídið klukkaði mig

Í vikunni ákvað að kynna mér þennan blessaða Covid-sjúkdóm af eigin raun. Reyndar varð það svo að kóvídið ákvað að klukka mig en ekki öfugt. Varð hálfslappur á sunnudagskvöldið og tók heimapróf. Viti menn; um leið og vökvinn skreið upp mælinn komu tvö skýr strik. Fékk svo staðfestingu í hraðprófi á Suðurlandsbrautinni daginn eftir.

Það hefur reyndar aðeins komið mér á óvart að ég er búinn að vera slappur í fjóra daga og dagurinn í dag sá fyrsti þar sem ég er þokkalegur. Ég fann ekkert fyrir bólusetningarsprautunum þremur á sínum tíma, svo ég bjóst alveg eins við að finna lítil eða engin einkenni þegar ég loksins smitaðist. En, allt er þetta nú á réttri leið hjá mér og fyrir það ber að þakka. Við hér á Reykjalundi höfum séð af eigin raun hvernig fólk hefur þurft að glíma við langvinn einkenni Covid mánuðum saman og sem betur fer hefur það orðið miklu sjaldgæfara með nýrri afbrigðum sjúkdómsins.

Ég er reyndar ekki sá eini sem er í þessari stöðu. Í gær fundaði til dæmis framkvæmdastjórn Reykjalundar (fjarfundur) og þá voru þrír heima með Covid greiningu. Það er nokkuð lýsandi fyrir ástandið hjá okkur en í þessari viku telst okkur til að um 20 starfsmenn hafi verið frá vegna Covid sem er vel yfir 10% starfsmannahópsins og í síðustu viku var ástandið svipað.

Óbreyttar sóttvarnarreglur fram að páskum

Miðað við fjölda smita í síðustu og þessari viku, hefur framkvæmdastjórn ákveðið að sóttvarnarreglur á Reykjalundi verði óbreyttar nú í mars og líklega fram að páskum. Reglurnar okkar hafa í stuttu máli verið að allir gæti vel að persónulegum sóttvörnum, grímuskylda er í almennum rýmum og fólk beðið að mæta ekki í húsið finni það fyrir einkennum. Við biðjum alla að virða þetta og halda í heiðri, enda flokkast margir sem sækja Reykjalund í áhættuhópa vegna sjúkdómsins.

Sóttvarnarreglurnar verða þó auðvitað endurskoðaðar ef ástæða þykir til en meðan smittölur eru í hæstu hæðum eins og nú er, verðum við að fara gætilega.

Miðasala á árshátíðina komin í gang!

Vegna Covid missti ég af þessari skemmtilegu viku þar sem bolludagur, sprengidagur og öskudagur fara saman. Þessi vika hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér en svona er lífið stundum. Eldhúsið okkar töfraði fram bollur á bolludaginn, saltkjöt og baunir á sprengidag og á öskudaginn brugðu margir hér á Reykjalundi sér í búninga, eins og tíðkast víða í samfélaginu. Alltaf skemmtilegt að breyta út af vananum en myndir frá öskudeginum birtast á heimasíðum Reykjalundar fljótlega. Ég laumaðist þó til að stela þessari glæsilegu mynd frá starfsfólki iðjuþjálfunarinnar til að nota með molunum í dag.

Ekki var síður skemmtilegt í vikunni að árshátíð Reykjalundar var kynnt með pompi og prakt, en hún verður 9. apríl á hótel Selfossi. Upphaflega stóð til að hún væri núna á laugardaginn, 5. mars en sem betur fer vorum við forsjál að fresta henni. Þó takmarkanir hafi verið afnumdar í samfélaginu hefði alls ekki verið heppilegt að hafa allt starfsfólk Reykjalundar saman á árshátíð á þessum tímapunkti mikilla smita í faraldrinum.

Miðasala á árshátíðina hefst í dag og hvet ég alla, sem mögulega geta, til að mæta á þennan magnaða viðburð 😊

Að lokum vil ég óska talmeinafræðingum með Evrópudaginn sinn sem er á sunnudaginn, 6. mars!

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka