25.02.2022

Föstudagsmolar forstjóra 25. febrúar 2022

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Ég vil byrja á því að þakka þeim fjöldamörgu sem tóku þátt í 77 ára afmælisveislu Reykjalundar í hádeginu í gær – og ekki síst góðar kveðjur til Gunnars kokks og hans fólks í eldhúsinu fyrir þennan ljómandi ljúffenga mat sem við fengum.

Þrátt fyrir en eina lægðina sem hrellir okkur í dag, er spennandi vika framundan.
Bolludagur og sprengidagur byrja næstu viku með tilheyrandi áti og gleði. Ekki síst hlakka ég þó til öskudagsins og vil taka undir með starfsamannafélaginu okkar og hvetja alla til að mæta í búningum hingað á Reykjalund þann dag til að gleðja sjálfa sig og aðra.

Erna Bjargey, formaður starfsmannafélagsins, er einmitt gestahöfundur föstudagsmolana okkar í dag en það er hreint frábært að sjá hvað starfsmannafélagið okkar er öflugt þessi misserin. Molana er að finna hér að neðan.

Að lokum vil ég svo minna á að í hádeginu á miðvikudaginn (öskudaginn) er kynning hjá árshátíðarnefndinni okkar á árshátíð Reykjalundar 2022 sem fram fer 9. apríl og vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja sem flesta til að taka þátt.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur

Pétur



Snjór, lægðir, starfsmannafélagið og skítsæmilega ég

Það er hrikalega skemmtilegt að vinna á Reykjalundi, sérstaklega núna því ég er í stjórn starfsmannafélagsins. Hér starfar hópur af færu fólki úr ýmsum áttum og það hefur verið einstakt tækifæri fyrir mig að kynnast mörgum af þessum einstaklingum. Við í stjórninni nutum til dæmis þeirra forréttinda að fá að ferðast um húsið tvisvar sinnum þegar allt var lokað og hólfaskipt (man nokkur eftir því??). Í annað skiptið fékk ég meira að segja far í hjólastól um gangana! Allir tóku á móti okkur með brosum, mikið var hlegið og spjallað.
Starfsmannafélagið á notalegan sumarbústað í Kjarnaskógi við Akureyri. Þar er gott að vera og stutt í fjallið. Myndir dagsins eru úr ferð fjölskyldunnar þangað í byrjun febrúar.

Við höfum öll heyrt frasann um að vera besta útgáfan af sjálfum okkur, þessi frábæru og hvetjandi orð. En er besta útgáfan af okkur endilega sú lang besta? Getum við staðist kröfurnar og verið alltaf besta útgáfan eða þurfum við að skoða þetta í stærra samhengi.
Til þess að líða vel þurfum við að huga að heilsunni. Við á Reykjalundi vitum að líkamleg og andleg heilsa skiptir miklu máli.  Við þurfum að sofa vel. Við þurfum að borða vel og borða GÓÐAN mat. Við þurfum að eiga áhugamál. Við þurfum að elska og eiga í samskiptum sem eru uppbyggjandi og heilbrigð og okkur þarf að hlakka til. Já, hlakka til!
Núna er tíminn til að láta sér hlakka til. Það eru bjartir tímar fram undan. Mitt í þessum lægðum sem skella á okkur á nokkurra daga fresti glittir í sólina sem geislar svo fallega í snjónum, töfraduftinu sem sumir elska. Ég veit fátt fallegra en nýfallinn snjó. Hvað þá að þeysast á skíðum um brattar brekkur á aðeins of mikilli ferð.

Við þurfum ekki að setja á okkur óraunhæfar kröfur, við þurfum t.d. ekki að vakna kl. 5:30 og fara í ræktina og búa til þeyting úr heimaræktuðu káli. Til þess að vera góð útgáfa af okkur sjálfum er mikilvægt að þekkja sjálfan sig vel. Við eigum ekki að vera með of marga bolta á lofti. Pössum líka að þessir boltar séu okkar boltar, ekki boltar einhverra annarra. Það er nefnilega erfitt að vera besta útgáfan af einhverjum öðrum. En svo hitt… þurfum við að vera besta útgáfan af okkur? Það er líklega gott fyrir okkur að vera laus undan samanburði frá öðrum og streitunni sem því fylgir. Við þurfum ekki að lifa eins og fólkið á samfélagsmiðlum. Við þurfum bara að vera eins og okkur hentar best, og okkur líður best. Frjáls í eigin vellíðan. Eigum við ekki bara að reyna að vera skítsæmilega útgáfan af sjálfum okkur? Lifa, njóta, gleðjast og hlakka til.

Erna Bjargey Jóhannsdóttir


Til baka