08.02.2022

Svolítið púsluspil, en fólk fær sína þjálfun

Það er óneitanlega reisuleg aðkoman að Reykjalundi, þessari myndarlegu endurhæfingarstofnun í Mosfellsbænum. Erindið þangað er að hitta Garðar Guðnason, sviðsstjóra og sjúkraþjálfara í lungnateymi Reykjalundar og ræða við hann um tilhögun endurhæfingar lungnasjúklinga undanfarin farsóttarmisseri. Garðar hefur unnið á Reykjalundi frá árinu 2017, fyrst bæði í tauga- og lungnateymi, en fyrir einu og hálfu ári, eða rétt fyrir COVID, fluttist hann alfarið yfir í lungnateymið þegar hann varð sviðsstjóri þess.

Reykjalundi var lokað

Garðar segist aðeins hafa náð að sinna hefðbundinni lungnaendurhæfingu á Reykjalundi í stuttan tíma áður en heimsfaraldurinn brast á. „COVID hefur sannarlega litað endurhæfinguna mikið frá byrjun og truflað hana talsvert. Í fyrstu COVID bylgjunni í fyrravor var gert meðferðarhlé hjá viðkvæmustu skjólstæðingum Reykjalundar, þ.m.t. lungnasjúklingum. Síðar varð tímabundin breyting á öllu meðferðarstarfinu og við urðum varasjúkrahús fyrir Landspítala Háskólastjúkrahús með tvær tæplega 30 rúma sólarhringsdeildir. Hefðbundnir skjólstæðingar Reykjalundar fengu fjarendurhæfingu og var sett upp æfingaáætlun fyrir hvern og einn skjólstæðing. Hún samanstóð af útigöngum og heimaþjálfun. „Við létum fólk fá prógramm og æfingateygjur til að vinna með og fylgdum þeim svolítið eftir þannig,“ segir Garðar og bætir við að auðvitað hafi þetta ekki verið endurhæfing í líkingu við það sem fólk hafi átt að fá. „Þannig var bara staðan.“ 

Tvískipt vakt

Þessa tímabundnu lokun segir hann hafa komið til þar sem nauðsynlegt hafi verið að létta á sjúkrahúsunum. „Þaðan kom fólk, að vísu ekki með kórónuveiruna,“ útskýrir hann, „heldur aðrir sem þurfti að flytja til þess að búa til pláss.“ Þessi tilhögun kallaði á hálfgerða vaktavinnu hjá þeim, þar sem vinna þurfti tvískipta vakt. „Þetta var svona vikuskipting. Helmingur sjúkraþjálfaranna vann heima og sinnti fjarendurhæfingu og á meðan var hinn helmingurinn að annast skjólstæðinga hérna inni á Miðgarði og á lungnateymisganginum sem urðu tvær sólarhrings legudeildir hjá okkur.“

Mikil hólfaskipting

Garðar segir að um miðjan mars hafi þessi tvískipting hafist og að húsinu hafi eiginlega verið lokað þangað til í endaðan apríl. Þá hafi aðeins verið farið að opna aftur, en frá þeim tíma hafi ríkt mikil hólfaskipting á Reykjalundi. „Við erum tvö með meðferðarsvið á Reykjalundi, hvort um sig með fjögur teymi og lungnaendurhæfingin tilheyrir meðferðarsviði tvö. Skiptingin var þannig að annað meðferðarsviðið var fyrir hádegi í staðendurhæfingu og hitt svo eftir hádegi. Hinn hluta dagsins var fjarendurhæfing. Þetta fyrirkomulag gilti bæði fyrir skjólstæðinga og starfsmenn.

Ömurlegt fyrir skjólstæðingna

Þetta fyrirkomulag varði í einhverja mánuði, að vísu með einhverjum tilslökunum. „Svo fór þetta aðeins að samlagast. Það byrjaði þannig að við starfsfólkið fengum að vera í húsi allan tímann, en skjólstæðingarnir voru bara hálfan daginn,“ útskýrir hann og bætir við að þeir hafi þá að sama skapi fengið heimavinnu. „Bara þjálfun heima, út að ganga, einhverjar léttar æfingar, eða eitthvað sem þeir gátu ekki gert hérna á Reykjalundi. Við reyndum eftir fremsta megni að koma til móts við þessa hópa,“ segir Garðar þegar hann rifjar upp þennan tíma. „Þetta var náttúrulega heilmikil vinna og mikið álag á starfsfólkinu hérna, en að sama skapi bara ömurlegt fyrir skjólstæðingana að fá ekki þá endurhæfingu sem þeir þurftu.“ 

Þjálfunin í vítahring

Garðar minnist sérstaklega tímabilsins sem lungnasjúklingarnir treystu sér margir hverjir hreinlega ekki til að koma í þessu ástandi. „Þeir vildu bara einangra sig,“ segir hann og bætir við að það hafi verið ósköp skiljanlegt. „Það er hins vegar slæmt til lengri tíma litið að vera svona einangraður. Þetta býður bara upp á að erfiðara verði að koma sér aftur af stað. Fólk missir styrk og þjálfun lungnasjúklinga datt í svolítinn vítahring. Á tímabili fóru þeir bara í smá pásu.“ Ein aðalástæðan fyrir því að lungnasjúklingar fóru á bið segir Garðar að hafi verið vegna ákvörunar lungnateymis að vernda þennan sjúklingahóp. Einnig hafi komið upp smit á Reykjalundi í fyrra sem gerði það að verkum að þurft hafi að loka Reykjalundi í tvær vikur.

Gekk vel miðað við allt

Þegar þarna var komið sögu var starfsemin næstum því að komast í eðlilegt horf. „Það liðkaðist mikið um þetta þegar bólusetningarnar fóru af stað og þá gekk þetta betur,“ segir Garðar og bætir við að þá hafi verið farið að taka við þeim í endurhæfingu sem voru að ná sér eftir COVID. „Þeir einstaklingar máttu blandast öllum,“ útskýrir Garðar. Ennþá segir hann að töluverð hólfaskipting sé á Reykjalundi og að meðferðasvið eitt og tvö blandist ekki saman þótt þau séu bæði í húsinu. Búið sé að skipta prógramminu þannig að leiðir þessara einstaklinga liggi ekki saman. „Sem er alveg klárlega mikill hausverkur fyrir marga,“ segir hann brosandi og bætir við að miðað við allt hafi þetta gengið bara vel. 

Endurhæfingin nánast sú sama

Þegar ég spyr Garðar hvort hann hafi orðið var við mikla afturför hjá skjólstæðingum sínum á þessum tíma segist hann ekki geta fullyrt neitt. „Það voru örugglega margir sem biðu lengi eftir að komast inn og þeim hefur klárlega versnað. Auðvitað reyndum við að taka fólk inn eftir bestu getu.“ Hann segir að slíkt fari í gegnum ferli og þegar beiðni berist sé hægt að meta þörfina. „Núna er biðin ekki tiltakanlega löng eftir þessu mati og svo er yfirleitt mjög stutt bið þangað til fólk kemur inn í endurhæfingu.“ Endurhæfingin segir hann að hafi ekki breyst neitt að ráði. „Fólk kemur ennþá í þessar fjórar til sex vikur hingað í lungnaendurhæfingu. Þetta er bara eins og vinnudagur. Þú kemur á morgnana milli átta og níu og ert svo til þrjú, fjögur á daginn. Við erum samt ennþá hólfaskipt þannig að við náum ekki að bjóða nákvæmlega sömu þjónustu og við gerðum fyrir COVID, en vonandi styttist í það.“ 

Þjálfunin segir hann að sé hins vegar orðin eins og hún var, fyrir utan bilin sem myndast í æfingaprógramminu vegna hólfaskiptingarinnar. Ennþá þurfi líka að tvískipta tækjasalnum. „Nánast allir fara í tækjasalinn og fá æfingaáætlun þar. Meðferðarsvið tvö, þ.e. lungnafólkið, kemst ekki í tækjasalinn nema eftir hádegi á mánudögum, fyrir hádegi á þriðjudögum, eftir hádegi á miðvikudögum, fyrir hádegi á fimmtudögum og svo milli tíu til eitt á föstudögum. Svo er meðferðarsvið eitt með tíma þar á milli. Þetta er svona púsluspil. Fólk fær samt sína þjálfun.“ 

Púsluspilið áskorun

Ég spyr Garðar hvort hann telji að helsta áskorunin þennan tíma hafi falist í þessu púsluspili sem hólfaskiptingin hefur í för mér sér. „Já, þannig að skjólstæðingar okkar gætu fengið það sem þeir þyrftu og að við gætum boðið þeim góða þjónustu,“ segir hann hugsi og bætir við að hann telji að þau hafi gert það. „Við höfum alla vega fengið þau viðbrögð hjá fólki. Það hefur verið ánægt og fundið gríðarlega mikinn mun á sér.“

Hreyfiseðillinn

Þegar ég nefni hvað taki við eftir endurhæfinguna á Reykjalundi segir Garðar að oft haldi fólk áfram t.d. á HL stöðinni, eða þar sem sérhæfðir sjúkraþjálfarar og íþróttafræðingar starfi. Einnig nefnir hann hreyfiseðilinn sem hann segir að hafi litið dagsins ljós fyrir nokkrum árum. Hreyfiseðillinn felst í því að æfingaáætlun er sett upp í samráði við skjólstæðinginn í tiltekinn tíma, t.d. sex til átta vikur í byrjun. Hver hreyfiseðill gildir í eitt ár. Einstaklingnum er kennt á kerfið og svokallaður hreyfistjóri fylgist með hversu mikið viðkomandi sé búinn að hreyfa sig, þ.e. skráningunni og er í sambandi við hann.  

„Á Reykjalundi eru tveir hreyfistjórar sem sinna allmörgum eftir útskrift. Þannig hafa skjólstæðingarnir áfram tengingu við Reykjalund og eru í eftirfylgd hjá hreyfistjóranum.“ Hann segir að ef viðkomandi vill svo halda áfram með hreyfiseðilinn, þá geti hann gert það hjá hreyfistjóra í sínu umdæmi. „Það ættu að vera komnir hreyfistjórar inn á margar heilsugæslustöðvar. Þetta er t.d. mikið notað úti á landi.“ 

Auðvelt að segja fólki að hreyfa sig

Ég spyr Garðar að lokum hvaða skilaboð hann hafi til þeirra sem ekki séu ennþá farnir að hreyfa sig og þjálfa eftir COVID. „Það er auðvelt að segja fólki að hreyfa sig en það er erfiðara að byrja,“ svarar hann og brosir út í annað. „Annars skiptir mestu að fara rólega af stað. Ef maður ætlar sér of mikið er hætta á því að maður hrasi, en maður stendur þá upp aftur.“ Garðar hvetur fólk til að leita sér aðstoðar ef því finnst erfitt að koma sér af stað. „Þá vil ég sérstaklega benda á þessa hreyfiseðla,“ segir hann og getur þess að þeir séu mjög hvetjandi og ættu að vera komnir á flestar heilsugæslustöðvar. „Til þess að fá þá þarftu að fá beiðni í gegnum heimilislækni.“

Gæti verið fyrsta skref

Hann segir að oft þurfi ekki nema smávegis stuðning til að koma sér í gang. „Það hjálpar mikið að vita af einhverjum sem fylgist með án þess að vera einhver lögga. Hreyfiseðillinn gæti því verið fyrsta skref,“ segir hann og bætir við að ef þörf er á meiri stuðningi sé ráðlegt að leita til sjúkraþjálfara í einstaklingsmeðferð, en að það þurfi líka að gera í gegnum heimilislækni. Það er löng bið hjá þeim, en hreyfiseðillinn getur brúað slíkt bil. Þess ber að geta að allir hreyfistjórar eru sjúkraþjálfarar.

Þegar við kveðjumst hugsa ég til þess hve fljótt og fagmannlega starfsfólkið á Reykjalundi hafi brugðist við þessum erfiðu aðstæðum sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér. Það sama má sannarlega líka segja um framlag alls okkar harðduglega framlínufólks á þessum fordæmalausu tímum.

Til baka