Föstudagsmolar forstjóra - 28. janúar 2022
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Í dag verður kynnt afléttingaráætlun vegna COVID faraldursins hér á landi. Það verður sannarlega spennandi að sjá hlutina færast í þá átt, þó ég þori nú ekki að fagna strax (af fenginni reynslu). Vonandi erum við þó að upplifa upphafið að lokum faraldursins.
Í vikunni voru gerðar miklar breytingar á reglum um sóttkví og smitgát sem þýða verulegar breytingar á starfseminni hér á Reykjalundi. Nú munu án efa vera COVID smitaðir einstaklingar á ferð um húsið okkar öðru hverju og þá gildir sem aldrei fyrr að allir fylgi persónulegum sóttvörnum; fjarlægðatakmörk, grímuskylda o.sv.frv. - við þekkjum þetta öll vel.
Þetta er gríðarlega mikilvægt en ekki bara upp á punt – einnig minni ég á mikilvægi þess að ALLIR skrái viðtöl og fundi, svo smitrakning gangi hratt og markvisst fyrir sig þegar upp koma smit. Enn eru okkur í framkvæmdastjórn að berast ábendingar um að þessu sé ábótavant hjá einhverjum og úr því þarf að bæta strax.
Annars fagna sjálfsagt flestir fréttum gærdagsins um að við munum nú um mánaðarmótin hætta að starfrækja sólarhringsdeild á B2 sem hugsuð var sem neyðaraðstoð við Landspítala á mjög erfiðum tímum í COVID-faraldrinum hér á landi. Mörg ykkar hafa lagt hefðbundna vinnu við endurhæfingu til hliðar nú í janúar og farið langt út fyrir ykkar hefðbundna starfssvið til lausnar verkefninu. Þar með hefur mikilvæg endurhæfingarstarfsemi fyrir tugi sjúklinga verið frestað á meðan. Ég vil aftur færa sérstakar þakkir öllum þeim fjöldamörgu starfsmönnum sem komið hafa að þessu óvenjulega og krefjandi verkefni undanfarnar vikur sem og senda góðar kveðjur til starfsfólks Miðgarðs sem stytti jólafríið sitt til að mæta ástandinu og hefur lagt ýmislegt á sig undanfarið.
Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins sem eru góð hugvekja um gæðamál eftir gestahöfund dagsins, Sveindísi Önnu forstöðufélagsráðgjafa, sem skrifar reyndar pistilinn sem formaður gæðaráðs.
Góða helgi!
Bestu kveðjur
Pétur
Gleðilegt nýtt gæðaár kæru samstarfsmenn,
Þann 20. janúar voru tvö ár frá því að Gæðaráð Reykjalundar var stofnað og óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá.
Þegar litið er til baka um farinn veg síðasta ár þá er tvennt sem stendur upp úr. Annars vegar er það umsögn Embættis landlæknis um gæðauppgjörið sem Gæðaráð skilaði inn í janúar 2021 og langar mig að deila með ykkur beinni tilvitnun úr umsögninni en þar stóð:
„Gæðauppgjör frá Reykjalundi ber vott um fagmennsku, faglega umhyggju og áhuga á gæða- og umbótastarfi sem er í þróun. Embætti landlæknis hvetur stjórnendur og starfsfólk Reykjalundar til að halda áfram að vinna markvisst að gæðastarfi og nýta gæðauppgjör til að beina umbótastarfi þangað sem þörf er á“.
Það er alltaf gott að fá endurgjöf á unnin störf og í ljósi þessa höfum við haldið áfram á sömu braut og einbeitt okkur að innleiðingu rafrænnar gæðahandbókar í CCQ eins og flest ykkar hafið orðið vör við bæði í ykkar faghópum, teymum og starfshópum.
Það sem stóð einnig upp úr árið 2021 var klárlega ráðning tveggja gæðastjóra og þar með sýndi framkvæmdarstjórn svo sannarlega í verki stuðning sinn við gæða- og umbótarstarf. Gæðastjórarnir okkar, Berglind Gunnarsdóttir og Hlín Bjarnadóttir, hafa sökkt sér á kaf í gæðamálin og vinna markvisst að fjölmörgum þáttum gæðastarfs. Eitt af því sem þær hafa gert er að forvinna hin ýmsu gæðaskjöl svo að teymi, fag- og starfshópar eigi auðveldara með að fullvinna gæðaskjölin. Þær hafa einnig tekið við boltum frá umbótahópum og eru þessa dagana að skoða með hvaða hætti Reykjalundur getur innleitt þjónustukönnun. Fulltrúi úr umbótahópnum sem fjallaði um þjónustukönnun hefur verið í samstarfi við þær til að auka samfellu og hjálpa til við þetta mikilvæga brautryðjendastarf en einnig hefur verið töluvert samráð við aðrar stofnanir og gæðastjóra þar. Reykjalundur fékk gæða- og nýsköpunarstyrk frá Heilbrigðisráðuneytinu og er meðfylgjandi mynd frá því þegar tilkynnt var á rafrænum fundi um úthlutun. Gæðastjórar hafa einnig haldið áfram með vinnslu gæðavísa og ljóst að Reykjalundur getur orðið leiðandi hvað varðar þróun landsgæðavísa á sviði endurhæfingar og því spennandi hlutir framundan.
Gæðaráð í samvinnu við gæðastjóra og fulltrúa framkvæmdastjórnar er nú að leggja lokahönd á uppfærslu á gæðastefnu Reykjalundar. Ný gæðastefna byggir á góðum grunni fyrri stefnu en við endurnýtum, prjónum og heklum við hana til að uppfærslan sé í takt við faglegar kröfur samtímans. Gæðastefna er í eðli sínu breytileg og þarf að endurskoðast reglulega til að fylgja þróun á sviði endurhæfingar og heilbrigðisþjónustu.
Gæðaráð er einnig að smíða starfsreglur fyrir ráðið enda kallaði ráðning gæðastjóra á endurskipulag með tilliti til verkaskiptingar milli Gæðaráðs og gæðastjóra. Gæðaráð stefnir að því að kynna starfsreglur ráðsins og uppfærða gæðastefnu innan tveggja mánaða. Gæðastefnan verður send Fagráði Reykjalundar og framkvæmdarstjórn til umsagnar og í kjölfarið til allra starfsmanna sem geta sent inn umsögn eða ábendingar.
Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott og það hefur heimsfaraldurinn svo sannarlega kennt okkur og veit ég að margir hafa gripið í vinnslu gæðamála þegar klínískt starf með sjúklingum hefur verið í lágmarki. Mig langar því að lokum að þakka öllum þeim sem hafa komið að vinnu gæðamála á Reykjalundi með beinum eða óbeinum hætti fyrir dugnað og fagmennsku.
Megi gæði og gæfa fylgja okkur nú og um alla framtíð,
Sveindís Anna Jóhannsdóttir,
formaður Gæðaráðs Reykjalundar