10.12.2021

Föstudagsmolar forstjóra 10. desember 2021

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Jólamáltíð Reykjalundar heppnaðist vel – Takk fyrir okkur!
Í gær var aldeilis gaman í hádeginu þegar Reykjalundur bauð starfsfólki og gestum upp á árlega jólamáltíð. Af sóttvarnarástæðum var framkvæmdin með óvenjulegum hætti en þó tókst mjög vel til að bjóða upp á ljúffenga purusteik og tilheyrandi meðlæti að hætti hússins. Starfsmannafélagið bauð upp á tónlistaratriði en það var Páll Kristrúnar Magnússon sem lék og söng fyrir okkur létt lög með jólalegu ívafi. Eftirréttur var svo sendur inn í einstök hólf og deildir svo starfsfólk gæti átt notalega stund saman.
Gaman var að sjá að mjög margir starfsmenn brugðu út af hefðbundnu fatavali og buðu upp á mikla fjölbreytni í jólalegum klæðum, sem lífgaði heldur betur upp á stemninguna.
Við tókum nokkrar myndir af þessum glæsta hópi sem þegar hafa verið birtar; sjón er sögu ríkari. Mynd frá sjúkraþjálfuninni okkar fylgir einmitt molunum í dag.
Um leið og við hér á Reykjalundi vonum að allir hafi notið vel, tek ég heilshugar undir miklar þakklætiskveðjur til Páls, starfsmannafélagsins og síðast en ekki síst Gunnars og félaga í eldhúsinu.

Um 100 manns lokið meðferð vegna langvinnra einkenna COVID
Nú hafa um 18.000 Íslendingar smitast af COVID en sem betur fer hafa flestir náð sér að fullu. Reykjalundur kom mjög fljótt að umræðu um endurhæfingu einstaklinga með langvinn einkenni COVID. Langvinn einkenni sem einstaklingar hafa í kjölfar veikindanna eru um margt keimlík þeim einkennum sem hrjá þá einstaklinga sem Reykjalundur er vanur að sinna, þó svo að orsökin sé önnur. Þannig eru verkjavandamál, stoðkerfiskvillar, kvíði, depurð, svefntruflanir, þrekleysi og kulnun; allt einkenni sem starfsfólk Reykjalundar er vant að fást við með fjölbreyttum úrræðum þjálfunar, kennslu og fræðslu til sjálfshjálpar. Reynslan og verkfærin eru því til staðar svo hægt sé að nýta í þessu skyni.
Ánægjulegt er frá því að segja að frá maí 2020 hafa um 100 manns lokið meðferð vegna langvinnra einkenna COVID á Reykjalundi. Þar sem endurhæfingarstarf Reykjalundar fer að öllu leyti fram samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands hafa verið gerðir tímabundnir viðbótarsamningar milli Reykjalundar og Sjúkratrygginga um stóran hluta þessarar endurhæfingar. Við höfum nú uppfyllt þá samninga og skiluðum nýlega skýrslu til Sjúkratrygginga því til staðfestingar.
Ljóst er að bólusettir einstaklingar fá síður langvinn einkenni af völdum COVID en óbólusettir. Út frá því mætti ætla að færri Íslendingar þjáist af langvinnum einkennum af völdum COVID og þar með ætti biðlisti þessa hóps inn á Reykjalund að minnka. Það virðist vera raunin en þó þarf að hafa í huga að smittölur í nóvember og desember á þessu ári eru þær hæstu hér á landi síðan faraldurinn hófs. Sá hópur sem gæti átt það á hættu að fá langvinn einkenni í kjölfar þeirra smita er ekki kominn fram.

Jólafundurinn 15. desember kl 12:15
Að lokum vil ég minna á jólafund Reykjalundar í hádeginu næsta miðvikudag, 15. desember. Vegna sóttvarna verður árlegur jólafundur Reykjalundar með óvenjulegu sniði í ár en fundurinn verður haldinn í fjarfundi í TEAMS. Á dagskrá eru ávarp forstjóra, þar sem meðal annars verða kynntir starfsmenn sem fá starfsaldursviðurkenningar í ár, „Jólahugvekja“ í laufléttum dúr frá Gísla Einarssyni fjölmiðlamanni og síðast en ekki síst mun stjórn starfsmannafélagsins afhjúpa sigurvegara í jólaskreytingakeppni Reykjalundar 2021.
Vonandi náið þið flest að njóta með okkur!

Síðan ég skrifaði föstudagsmola síðast höfum við fengið nýja ríkisstjórn og nýjan heilbrigðisráðherra. Það er sjálfsagt að ljúka molunum í dag á því að við hér á Reykjalundi óskum nýjum heilbrgiðsráðherra til hamingju með embættið og velfernaðar í störfum sínum. Jafnframt hlökkum við til samstarfsins og munum án efa bjóða honum í heimsókn á nýju ári.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka